TOPP TÍU 2020

Elísabet Brynjarsdóttir

Störf á sviði mannúðar eða sjálfboðaliðamála

Elísabet Brynjarsdóttir

Elísabet er verkefnastjóri Frú Ragnheiðar, skaðaminnkandi þjónustu Rauða Krossins en áður en hún varð verkefnastjóri þá vann hún sem hjúkrunarfræðingur hjá Frú Ragnheiði í tvö ár. Hún hóf feril sinn í verkefninu sem sjálfboðaliði áður en hún var ráðin til starfa.

Sem verkefnastjóri hefur hún unnið ótrúlegt þrekvirki við skipulagningu starfsins og vitundarvakningu um orsakir, eðli og afleiðingar vímuefnavanda fyrir einstaklinginn, svo og samfélagið í heild eins og aðstæður heimilislausra og þeirra sem minna mega sín. Hún er ötul baráttukona jaðarsettra hópa, til dæmis heimilislausra og þeirra sem nota vímuefni í æð.

Hún fræðir almenning um stöðu fólks með vímuefnavanda og brennur svo heitt fyrir málefninu. Hún hefur tekið að sér það hlutverk að reyna sýna þjóðinni að fólk er fólk, alveg sama í hvaða aðstæðum það hefur lent og allir eiga skilið mannúð og virðingu.

Elísabet útskrifaðist úr Háskóla Íslands sem Hjúkrunarfræðingur árið 2017. Á meðan hún sinnti námi sínu stofnaði hún geðfræðslufélagið Hugrúnu árið 2016 og sat þar sem formaður félagsins árið 2017-2018. Á starfsári sínu sem formaður opnaði félagið heimasíðuna gedfraedsla.is með fræðslu um geðheilbrigði og úrræði á mannamáli. Sama ár sat hún í Stúdentaráði Háskóla Íslands sem formaður sviðsráðs en ári seinna (2018) var hún kjörin Forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Sem Forseti Stúdentaráðs HÍ byrjaði hún að berjast gegn ómannúðlegum tanngreiningum á hælisleitendum og vakti athygli á því að slíkar greiningar færu fram innan Háskólans. Ári síðar, 2019, ákvað Háskóli Íslands að hætta að tanngreina ungmenni á flótta. Hún tók einnig þátt í að stofna loftslagsverkfallið hér á Íslandi og skipulagði meðal annars stærstu kröfugöngu verkfallsins með yfir 2000 manns á Austurvelli að krefjast þess að Ísland geri meira fyrir jörðina. Þar að auki sat hún sem formaður stúdenta í alþjóðlegu samstarfsneti Háskóla, Aurora network, árin 2018-2020, þar sem hún barðist meðal annars fyrir vitundavakningu á geðheilbrigðismálum á alþjóðagrundvelli.