Framúrskarandi ungir ÍslendingarEftir mikla vinnu og mikinn undirbúning var verðlaunahátíðin Framúrskarandi ungir Íslendingar haldin með pompi og prakt í gær.

Þetta er í tólfta skiptið sem JCI veitir þessu verðlaun en athöfnin sjálf fór fram í Háskólanum í Reykjavík og var það Forseti Íslands, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson sem afhenti verðlaunin ásamt Einar Valmundssyni, landsforseta JCI á Íslandi.

JCI bárust á þriðja hundrað tilnefningar til verðlaunanna í ár og var því mikið og vandasamt verk fyrir dómnefnd að velja sigurvegarar úr glæsilegum hópi tilnefndra.

Að þessu sinni hlutu fjórir einstaklingar verðlaunin úr þeim glæsilega tíu manna hópi sem þegar var búið að kynna.

Þau hlutu verðlaunin Framúrskarandi ungir Íslendingar árið 2013:

Guðmundur Stefán Gunnarsson
Flokkur 7. Störf á sviði mannúðar- eða sjálfboðaliðamála.
Guðmundur Stefán Gunnarsson - Framúrskarandi ungur Íslendingur 2013Guðmundur Stefán er íþróttakennari og júdókennari í Reykjanesbæ. Hann stofnaði júdódeild sem er í dag stærsta júdófélag á Íslandi og er sérstök fyrir þær sakir að hún hefur eingöngu verið rekin í sjálfboðastarfi og nemendur greiða engin iðkendagjöld. Deildin á fjölda Íslandsmeistara og hefur Guðmundur hjálpað mörgum ungum iðkendum sem eiga ekki í önnur hús að venda, að fóta sig í íþróttinni og hefur hjálpað þeim að tileinka sér betri lífsstíl.

Hilmar Veigar Pétursson
Flokkur 8. Störf á sviði tækni og vísinda.
Hilmar Veigar Pétursson - Framúrskarandi ungur Íslendingur 2013Mikið hefur verið fjallað um velgengni tölvuleikjafyrirtækisins CCP en ekki hefur verið eins mikið fjallað um manninn í brúnni, Hilmar Veigar Pétursson. Auk þess að hafa leitt CCP í gegnum viðvarandi velgengni og gríðarlegan vöxt hefur hann tekið virkan þátt í að móta leikjaiðnaðinn sem og uppvöxt upplýsingatækni og frumkvöðlastarfsemi almennt á Íslandi.

Hilmar Veigar er þekktur fyrir að deila góðfúslega reynslu sinni og þekkingu ásamt aðgangi að tengslaneti ásamt því að vera í alla staði góð fyrirmynd verðandi tölvunörda.

Melkorka Ólafsdóttir
4. Störf /afrek á sviði menningar.
Melkorka Ólafsdóttir - Framúrskarandi ungur Íslendingur 2013Melkorka er framúrskarandi hljóðfæraleikari sem hefur farið víða um heim til þess að nema og vinna að listinni að leika á flautu. Hún komst inn í nokkra af bestu tónlistarháskólum heims og vann til verðlauna í einni stærstu flautukeppni heims, Nielsen keppninni í Kaupmannahöfn 2010.

Melkorka hefur síðustu árin starfað við sinfóníuhljómsveit í Japan en til þess að komast þar inn þurfti að keppa um starfið eins og venja er við sinfóníuhljómsveitir. Nú nýverið tók hún þátt í einni slíkri fyrir starf við London Philharmonic Orchestra og er ein af úrslitakeppendunum sem verða ráðnir í tímabundið starf með hljómsveitinni á næsta starfsári.

Vilborg Arna Gissurardóttir
9. Einstaklingssigrar og/eða afrek.
Vilborg Arna Gissurardóttir - Framúrskarandi ungur Íslendingur 2013Vilborg er fyrsta íslenska konan sem gengur á Suðurpólinn og safnaði í leiðinni 37 milljónum til styrktar kvennadeildar Landspílalans. Nú stefnir hún á að klífa sjö hæstu tinda heims en hún komst á tind Denali (McKinley-fjall), hæsta fjalls Norður-Ameríku, fyrir nokkrum dögum síðan.

Vilborg hefur haldið fjölmarga fyrirlestra og hvatt fólk til að setja sér markmið og láta drauma sína rætast. Hún hefur svo sannarlega lagt sitt af mörkum til að bæta samfélagið og er frábær fyrirmynd fyrir ungt fólk.

Framúrskarandi ungir Íslendingar 2013 - verðlaunaafhending
Frá vinstri: Guðrún (tók við verðlaunum fyrir hönd Hilmars veigars), Guðmundur Stefán Gunnarsson,
Vilborg Arna Gissurardóttir og Sigrún (tók við verðlaunum fyrir hönd Melkorku)