Anna Sæunn Ólafsdóttir
Störf/ afrek á sviði menningar
Anna Sæunn Ólafsdóttir er íslensk kvikmyndagerðar- og leikkona, en hún útskrifaðist úr Kvikmyndaskóla Íslands árið 2012 af leikarabraut.
Hún hefur síðustu ár unnið sem leikkona, leikstjóri og framleiðandi en hún stofnaði sitt eigið framleiðslufyrirtæki, NyArk Media árið 2016. Fyrirtækið framleiðir m.a. stutt- og heimildarmyndir, en markmið fyrirtækisins er að hafa jákvæð áhrif á samfélagið í gegnum sagnalistir.
Nokkrar myndir sem Anna Sæunn hefur komið að framleiðslu, hafa unnið til verðlauna bæði hérlendis og erlendis. Má þar nefna stuttmyndirnar Regnbogapartý, Frelsun, Umskipti og Þögn Silungsins. Þá vann Anna í framleiðsludeild kvikmyndarinnar Hrútar sem vann ein aðalverðlaunin í Cannes árið 2015. Anna vinnur að sinni næstu stuttmynd sem leikstjóri um þessar mundir, Zoo-I-Side, sem tekin verður upp í Lyon í Frakklandi og mun skarta Halldóru Geirharðsdóttur og Aldísi Ömu Hamilton í aðalhlutverkum. Hægt er að lesa um NyArk Media hér http://www.nyarkmedia.com/about-1.
Anna hefur síðustu 8 ár unnið markvisst að valdeflingu kvenna, trans- kynsegin og intersex fólks bæði í kvikmyndagerð og tónlist, t.a.m. með starfi sínu í samtökunum Stelpur rokka!, þar sem hún starfar í dag sem framkvæmdastýra. Í gegnum samtökin hefur hún starfað sem sjálfboðaliði í rokkbúðum á Íslandi, Kaliforníu, Grænlandi og Tógó í Vestur-Afríku auk þess sem hún hefur stýrt fjölmörgum verkefnum og sótt ráðstefnur innan samtakanna í Evrópu og Bandaríkjunum.
Anna hefur setið mörg námskeið í kvikmyndagerð, leiklist og frumkvöðlastarfi. T.a.m. viðskiptahraðalinn Firestarter, Young Nordic Producers Club í Cannes og Brautargengi hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, þar sem hún fékk meðal annars reynslu í gerð viðskiptaáætlana. Fyrir ýmis menningar- og frumkvöðlaverkefni hefur Anna m.a. hlotið styrki frá Atvinnumálum Kvenna, Erasmus+ og Kvikmyndamiðstöð Íslands.
Anna Sæunn vann árin 2020-2022 sjálfboðavinnu sem forseti stjórnar WIFT á Íslandi (Konur í kvikmynda- og sjónvarpsgerð) en hún er mjög ástríðufull fyrir valdeflingu kvenna og ungs fólks almennt. Hún hefur stundað forfallakennslu í grunnskóla og kennt námskeið í kvikmyndagerð bæði fyrir börn og fullorðna, t.a.m. í verkefninu Stelpur Filma.
Anna er einnig menntaður ÍAK einkaþjálfari, markþjálfi og tónlistarkona. Hún hefur klárað tvo hálfa járnkarla og æfir í dag fyrir maraþon og Spartan hlaup. Anna hefur verið einstæð móðir síðustu tvö ár og vinnur að þróun verkefna til valdeflingar einstæðra kvenna og mæðra, en hún starfar sem heildrænn þjálfari og stýra hlaðvarpsins Please Plan to Fail. Lesa má meira hér á heimasíðu hennar www.annaolafsdottir.com.
Allt í allt er Anna Sæunn drífandi, hugrökk manneskja, kvenskörungur og multitasker með meiru.