Aníta Sóley Scheving Þórðardóttir framúrskarandi ungur Íslendingur 2023
Aníta Sóley Scheving Þórðardóttir hlaut í dag titilinn Framúrskarandi ungur Íslendingur 2023. Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson afhenti verðlaunin í Sólinni, Háskóla Reykjavíkur ásamt Margréti Helgu Gunnarsdóttur, landsforseta JCI. Það eru samtökin JCI á Íslandi sem veita verðlaunin á hverju ári en Aníta Sóley var tilnefnd fyrir framlag sitt til barna, heimsfriðar og/eða mannréttinda. Verðlaunagripurinn er einstakt listaverk eftir glerlistamanninn Jónas Braga Jónasson.
Forseti Íslands Hr. Guðni Th. Jóhannesson, Aníta Sóley Scheving Þórðardóttir Framúrskarandi Ungur Íslendingur 2023 og Margrét Helga Gunnarsdóttir landsforseti JCI. Mynd: Ragnar F. Valsson
Á hverju ári óskar JCI hreyfingin eftir tilnefningum til verðlaunanna og dómnefnd velur síðan 10 einstaklinga sem hljóta viðurkenningu fyrir að vera Framúrskarandi ungir Íslendingar vegna einstaks framlags þeirra til íslensks samfélags. Hér er hægt að lesa um Topp tíu hópinn í ár. Verðlaunin sjálf eru síðan veitt til eins einstaklings sem þykir skara sérstaklega fram úr. Aðrir sem voru tilnefndir í ár eru Anita Ýrr Taylor, Annie Mist Þórisdóttir, Birna Dröfn Birgisdóttir, Bryndís Bjarnadóttir, Edda Þórunn Þórarinsdóttir, Kristín Taiwo Reynisdóttir, Laufey Lín Jónsdóttir, Sveinn Sampsted og Tinna Hallgrímsdóttir.
Verðlaunin eru alþjóðlegt verkefni JCI hreyfingarinnar en árlega eru 10 framúrskarandi einstaklingar verðlaunaðir á heimsþingi JCI. Aníta Sóley verður því tilnefnd frá Íslandi til alþjóðlegu verðlaunanna á næsta ári. Erlendis eru verðlaunin nefnd TOYP verðlaun, Ten Outstanding Young Persons of the World, en á meðal verðlaunahafa eru Elvis Presley, Bruce Lee og Bill Clinton.
Verðlaunin eru bæði hvatning fyrir þessa framúrskarandi einstaklinga til áframhaldandi starfa og á sama tíma innblástur og hvatning til okkar allra að leggja okkar af mörkum til að byggja betra samfélag.
Þetta var í 21. skiptið sem verðlaunin eru afhent en á meðal þeirra sem hafa hlotið þennan titil síðustu ár eru Ingileif Friðriksdóttir fjölmiðlakona, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Ævar Þór Benediktsson bókahöfundur, Margrét Lára Viðarsdóttir knattspyrnukona, Emilíana Torrini söngkona, Vilborg Arna Gissurardóttir Everest-fari, Sævar Helgi Bragason stjörnufræðingur, Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari og Rakel Garðarsdóttir stofnandi Vakandi, samtaka um aukna vitundarvakningu varðandi sóun matvæla. Fleiri vinningshafa má finna hér (https://framurskarandi.is/um-verdlaunin/verdlaunahafar-fyrri-ara/)
Dómnefndina skipaði Þórunn Eva Pálsdóttir framúrskarandi ungur Íslendingur 2021 og stofnandi Míu Magic, Helgi Guðmundsson senator JCI, Eva Brá Önnudóttir varaforseti LUF, Kolbrún Þ. Pálsdóttir forseti Menntavísindasviðs og Margrét Helga Gunnarsdóttir landsforseti JCI 2023.
Um Anítu Sóley og tilnefninguna:
Aníta Sóley Scheving Þórðardóttir er formaður ungmennaráðs Barnaheilla þar sem hún berst sérstaklega fyrir lýðræðisþáttöku og réttindum barna. Þar skipulagði hún þjálfunarbúðir í Svíþjóð þar sem hún kenndi börnum að berjast fyrir réttindum barna með barnasáttmála SÞ að leiðarljósi. Hún sá um að halda viðburð sem hét “undir fjögur augu” þar sem talsmenn barna á Alþingi komu og ræddu við ungt fólk um það sem börnum þykir mikilvægt. Þetta er ein af mörgum leiðum hvernig Anita reynir að ýta undir lýðræðisþátttöku barna.
Aníta Sóley er varaforseti SÍF (Samband Íslenskra Framhaldsskóla) en hún hefur setið í stjórn félagsins í nokkur ár. Hún meðal annars barðist sérstaklega fyrir réttindum og þátttöku barna, skipulagði mótmæli fyrir utan Menntamálaráðuneyti vegna skorts á samráði nemenda vegna sameiningu Menntaskólans við Sund og Kvennaskólans.
Aníta Sóley situr sem jafnréttisfulltrúi LÍS starfsárið 2023 – 2024 en það eru regnhlífarsamtök og að félaginu standa 8 aðildarfélög sem eru í forsvari fyrir háskólanema í öllum háskólum landsins sem og íslenska námsmenn erlendis. Samtökin gæta sameiginlegra hagsmuna stúdenta og sinna ýmsum verkefnum sem eiga það sameiginlegt að auka jafnrétti til náms og að bæta háskólasamfélagið á Íslandi. Þar berst hún fyrir jafnrétti fyrir alla stúdenta. Innan Háskóla Íslands situr hún einnig í Alþjóðanefnd stúdentaráðs og alþjóðanefnd Röskvu.
Aníta Sóley hefur beitt sér fyrir réttindum fólks á flótta í gegnum grasrótarhreyfinguna Andóf (áður þekkt sem fellum frumvarpið) og setti sérstaka áherslu á réttindi barna á flótta. Hún hefur ásamt öðrum meðlimum Andófs/fellum frumvarpið skrifar greinar í fréttamiðla til að stuðla að vitundarvakningu. Auk þess er hún hluti af instagrami sem heitir @andofid þar sem birt er fræðsla um ýmis mannréttindi og hlutverk ríkisvaldsins. Markmið þess reiknings er að miðla upplýsingum á mannamáli til ungs fólks. Aníta hefur beitt sér fyrir mannréttindum í gegnum öll hennar félagsstörf og alltaf lagt áherslu á börn og að þau séu virt.
JCI Ísland óskar Anítu Sóley hjartanlega til hamingju með titilinn og topp tíu hópnum fyrir framúrskarandi störf á þeirra sviði.