Ingólfur Snær Víðisson
Störf á sviði mannúðar og/ eða sjálfboðaliðamála
Ingólfur Snær Víðisson er mikillk leiðtogi þegar kemur að stuðningi við jaðarsetta hópa á Íslandi. Í dag vinnur hann ómetanlegt sjálfboðaliðastarf fyrir Afstöðu, samtök sem styðja fanga, fyrrverandi fanga og aðstandendur þeirra. Ingólfur fer ekki einungis í öll fangelsi landsins sem hluti af vettvangsteymi Afstöðu, heldur sér hann sérstaklega um að hitta ungt afbrotafólk og börn í neyðarvistun. Á Litla-Hrauni, stærsta fangelsi landsins, leiðir hann mikilvægt starf á meðferðargangi og styður fanga í gegnum krefjandi ferli betrunar og endurhæfingar.
Sagan hans sjálfs er einstök og áhrifarík. Ingólfur ólst upp í erfiðum aðstæðum og var oft vistaður á barnaheimilum og í neyðarvistun á yngri árum. Síðar varð hann sjálfur fangi og þurfti að takast á við alvarlega vímuefnaröskun. Þessi reynsla hefur mótað hann djúpt, en í stað þess að láta hana brjóta sig niður, hefur hann snúið henni í kraftmikinn boðskap um betrun og samfélagslega ábyrgð. Ingólfur sótti sér nauðsynlega aðstoð til að ná bata, og í dag rekur hann eigið fyrirtæki og vinnur af heilindum að því að styðja fólk sem stendur frammi fyrir áskorunum sem hann þekkir sjálfur af eigin raun.
Sem sjálfboðaliði hjá Afstöðu sinnir Ingólfur fjölbreyttum og krefjandi verkefnum. Hann hefur tekið að sér að svara neyðarsíma Afstöðu allan sólarhringinn, sem hefur reynst lífsnauðsynlegur stuðningur fyrir marga í neyð. Hjá honum fá skjólstæðingar um leið jafningjafræðslu og ómetanlegan stuðning. Hann hefur verið fyrirmynd og hvatning fyrir unga sem eldri, og með nærveru sinni og einlægri ástríðu fyrir starfinu hefur hann beint og óbeint bjargað mannslífum.
Eitt af því sem gerir Ingólf framúrskarandi er að hann nýtir eigið bataferli til að hjálpa öðrum. Hann er virkur í starfi AA og hefur tekið að sér að dreifa þeim jákvæða boðskap sem fylgir bata frá vímuefnum. Hann er því ekki aðeins að styðja fanga og ungt fólk í fangelsum, börn í meðferð og neyðarvistun heldur er hann fyrirmynd utan fangelsanna, sem einhver sem hefur gengið í gegnum erfiðleika og hefur tekist að snúa lífi sínu við. Ingólfur gefur þeim von um að breytingar séu mögulegar og veitir þeim verkfæri til að takast á við eigið líf.
Í sjálfboðaliðastarfinu hjá Afstöðu hefur Ingólfur einnig sérstakan styrk sem leiðtogi. Hann á auðvelt með að tengjast fólki á jafningjagrundvelli og hefur einstaka getu til að veita stuðning á einlægum og árangursríkum hátt. Hann er fyrirmynd þeirra sem þurfa á hjálp að halda, en einnig þeirra sem vinna að því að bæta réttindi og aðbúnað fanga og jaðarsettra hópa eins og heimilislausra en Ingólfur er starfsmaður velferðarsviðs Reykjavíkurborgar í málefnum heimilislausra.