Rima Charaf Eddine Nasr
Ríma hefur verið ómetanlegur sjálfboðaliði í rokk búðum samtakanna Læti fyrir 10-12 ára og 13-16 ára börn. Fyrir utan það hefur hún unnið ötult sjálfboðastarf hjá Rauða krossinum og í frítíma sínum syngur hún og spilar á gítar og les heimsbókmenntir (er sem stendur að lesa hinn guðdómlega gleðileik Dante’s).
Ríma hefur unnið brautryðjandi starf í félagasamtökunum Læti! Ríma hefur reynst þeim algjörlega ómissandi, sérstaklega vegna stuðnings við arabískumælandi börn sem mörg hver komu nýlega frá stríðshrjáðum svæðum. Þekking hennar og hæfni til að hjálpa þessum börnum að aðlagast nýjum aðstæðum var lykilatriði í að tryggja að þeim líði sem best í búðunum. Búðirnar eiga nefnilega að vera öruggara rými fyrir þátttakendur.
Ríma er frá Sýrlandi og gat því átt örugg samskipti við arabískumælandi börn sem komu frá botni Miðjarðarhafsins. Þar sem arabíska hefur margar mállýskur var erfitt að finna túlk sem gat þýtt þann mikla fjölda palestínskra barna sem komu til okkar þetta árið. Þessi tungumála- og menningarfærni er sjaldséð, hvað þá í sjálfboðaliðastarfi, og því reyndist þátttaka Rímu ómetanleg. Í einu tilviki þurfti hún að fylgja barni til læknis vegna þess að sýking var að komast í sprengjusár á fæti palenstínskrar stúlku. Það var ótrúlega mikilvægt fyrir stúlkuna að hafa Rímu við hlið sér í því ferli og gefa henni leiðbeiningar um hvernig megi hlúa að sprengjusári þar sem bæði þarf að huga að skurði og bruna.
Hún er einnig afar næm á tilfinningar barnanna og einnig á menningarlæsi þeirra heima sem börnin komu úr, en þessi menning var oft mjög frábrugðin þeirri sem íslensku börnin höfðu alist upp við. Ríma er ung nútímakona með sama viðhorf og áhugamál og jafnaldrar hennar á Íslandi.
Þótt hún sé trúlaus og lifnaðarhættir hennar í takt við hina sjálfstæðu íslensku konu, var hún fullfær um að taka á móti ungum stúlkum sem koma úr öðrum menningarheimum og hafa alist upp við aðrar skoðanir. Hún bar virðingu fyrir þeim stúlkum sem klæddust hijab þótt hún gerir það ekki sjálf. Hún hafði einnig einstaka hæfni í að miðla á milli krakka frá löndum þar sem hinseginleiki er sjaldséður eða óþekktur og hinsegin krakka frá Íslandi. Nærgætni Rímu gerði það að verkum að krakkarnir gátu rætt þessi viðkvæm málefni á virðingarfullan hátt.
Velgengni hennar í þessu verkefni var svo mikil að það mátti lesa margar fallegar athugasemdir um hana, þar sem Ríma var sérstaklega nefnd með nafni, í þátttakenda könnununum eftir búðirnar.
Ríma var einnig í mjög góðum samskiptum við foreldra sem hvorki töluðu ensku né íslensku, sem var afar mikilvægt fyrir starfsemi búðanna og við hefðum aldrei haft möguleika á að bjóða arabískumælandi börnum pláss ef ekki hefði verið fyrir góða samskiptafærni Rímu. Nálgun hennar á túlkastarfi samtakanna var framúrskarandi, en fyrir utan að sinna æskulýðsstörfum gat hún einnig miðlað þekkingu á gítarleik til krakkanna þar sem hún er fær spilari.