Í dag afhenti Forseti Íslands verðlaunin Framúrskarandi ungir Íslendingar við hátíðlega athöfn í Sólinni í Háskólanum í Reykjavík. Verðlaunin í ár féllu í skaut Sævars Helga Bragasonar fyrir störf á sviði tækni og vísinda.
Sævar er afburða vísindamaður sem nýtt hefur hæfileika sína til þess að gefa af sér til samfélagsins og er það í samræmi við JCI gildin sem hreyfingin lifir eftir. Sævar Helgi hefur unnið óeigingjarnt starf í þágu vísinda á Íslandi. Hann er formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness og ritstjóri Stjörnufræðivefsins. Hann er framúrskarandi ungur vísindamaður sem hefur í mörg ár kveikt áhuga barna, ungmenna og fullorðinna á alheiminum og stjörnuskoðun. Sævar er sérfræðingur sem fjölmiðlar leita gjarnan til. Hann hefur hafið vísindakennslu upp á hærra plan með því að vekja áhuga barna á vísindum og tækni á frumlegan hátt. Hann safnaði meðal annars öllu fé sem þurfti til að gera Galíleósjónaukann að veruleika og heimsótti 150 skóla í tengslum við verkefnið. Galíleósjónaukinn er fyrst og fremst kennslutæki, ætlað til að efla áhuga barna og unglinga á vísindum. Þetta er aðeins brot af miklum dugnaði Sævars við ýmis verkefni tengd stjörnufræði.
JCI Ísland óskar Sævari hjartanlega til hamingju með verðlaunin.