Björn Grétar Baldursson
Framlag til barna, heimsfriðar og/eða mannréttinda
Björn Grétar Baldursson er útskrifaður flugumferðarstjóri en fyrst og fremst fjölskyldufaðir sem er búsettur á Akureyri. Hann segist ekki fyllilega hafa gert sér grein fyrir því hvað felst í því að vera pabbi fyrr en hann eignaðist sitt fyrsta barn en hann á tvö börn með konu sinni.
Það tók Björn Grétar smá tíma að átta sig á hvert hlutverk hans var í raun og veru en hjólin fóru loks að snúast þegar hann sótti námskeið hjá Kristínu Maríellu um uppeldið með virðingu. Það var svo ekki fyrr en konan hans var ólétt af þeirra seinna barni þegar hann áttaði sig á því að hann þyrfti að fara skoða sitt hugarfar. Hann byrjaði að fylgjast með instagram reikningunum Karlmennskan og Kviknar. Þegar seinna barnið, dóttir, kom í heiminn fór hann að átta sig á ábyrgðinni sem fylgdi því að eiga barn fyrir utan þá lágmarksábyrgð að halda því á lífi.
Í júní 2021 byrjaði Björn Grétar svo með instagram síðuna Pabbalífið en þar sýnir hann frá fjölskyldulífinu, deilir uppeldisráðum ásamt því að spá í föðurhlutverkið og karlmennskuna, oft á spaugilegan hátt.
Ástæðan fyrir því að Björn Grétar bjó til síðuna var vegna þess að hann vildi gera föðurhlutverkið sýnilegra, opna umræðuna og á sama tíma vera smá innblástur fyrir feður sem upplifðu sig smá fasta. Hann vildi einnig sýna það að vera pabbi væri líka sá sem tæki þátt í heimilinu og uppeldinu ásamt því að sýna hvernig breytt hugarfar hafði hjálpað honum að verða betri faðir sem og maki.
Allt í allt er Björn Grétar fyrirmynd, opinn, einlægur faðir sem hefur margt fram að bjóða og kenna öðrum.
Hér er hægt að lesa skemmtilegt viðtal við Björn Grétar um föðurhlutverkið https://www.mbl.is/born/frettir/2021/12/26/gafst_ekki_upp_a_fodurhlutverkinu/.