Embla Bachmann

Störf /Afrek á sviði menningar 

Frá unga aldri hefur Embla verið mikill bókaormur. Hún heillaðist fljótt af ævintýraheimi bókanna og ellefu ára gömul ákvað hún að setja sér það markmið að skrifa sjálf sögur og ljóð.

Árið 2018 skrifaði Embla smásöguna Rófulausi hundurinn og hárlausi kötturinn sem var hluti af rafbókinni RISAstórar smáSÖGUR. Yfir grunnskólagönguna fékk Embla fjórum sinnum verðlaun í ljóða- og smásagnakeppni skólans, ýmist fyrir ljóð eða smásögu. Með ljóðinu Úti er ævintýri sigraði Embla ljóðakeppnina Ljóðaflóð árið 2021.

Stelpur stranglega bannaðar! er fyrsta bók Emblu sem hún gaf út árið 2023. Í ár, 2024 gaf hún út bókina Kærókeppnin.

Embla var sú yngsta til að hljóta tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2023 fyrir bókina sína Stelpur stranglega bannaðar.

Embla starfar einnig á Rúv við útvarpsþáttagerð fyrir börn og ungmenni á Rás 1 og heita þættirnir hennar “Hvað ertu að lesa”. Hún er líka hluti af Krakkafréttateyminu í sjónvarpinu á RÚV

Embla vill leggja sitt af mörkum til að efla barna- og unglingabókmenntir og vill reyna að gera eins mikið og hún getur. Aðspurð segist Embla hvergi nærri vera hætt að skrifa þar sem það sé það skemmtilegasta sem hún gerir. Sjálf les hún alls kyns bækur og þykir skemmtilegast að hafa þær sem fjölbreyttastar.