Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir
Framlag til barna, heimsfriðar og/eða mannréttinda
Inga Björk er ötul baráttukona fyrir réttindum fatlaðs fólks. Inga Björk, sem hefur verið í hjólastól frá því að hún var barn, starfar hjá Landssamtökunum Þroskahjálp en hefur síðastliðinn áratug unnið að vitundarvakningu og fræðslu og gegn fordómum gagnvart fötluðu fólki. Barátta Ingu Bjarkar hefur þó ekki aðeins tekið til fatlaðs fólks heldur hefur hún samhliða baráttu sinni vakið athygli á stöðu hinsegin fólks, fólks á flótta, heimilislauss fólks og annarra jaðarsettra hópa í íslensku samfélagi.
Inga Björk er listfræðingur að mennt og hefur kennt í háskólum innanlands og utan, á ólíkum sviðum en þar hafa réttindi og sýnileiki fatlaðs fólks verið þungamiðja. Hefur hún fjallað meðal annars um ofbeldi gagnvart fötluðu fólki, stöðu seinfærra foreldra, fötlunarlist og um samskipti lögreglu við fatlað fólk.
Þá hefur Inga Björk starfað lengi í stjórnmálum. Hún er varaþingmaður Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi og tók fyrst sæti á Alþingi nú í október. Þar lagði hún fram fjölda fyrirspurna og eitt frumvarp sem tengdust m.a. réttindum og þjónustu við fatlað fólk, til dæmis um stöðu fatlaðra fanga, bið eftir þjónustu og stöðu fatlaðs fólks í hamfara- og neyðarástandi.
Inga Björk hefur vakið mikla athygli fyrir skrif sín á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum og vakið marga til umhugsunar um hvernig fötlunarfordómar og misrétti er ofið inn í samfélagið.