Ingvi Hrannar Ómarsson
Leiðtogar/ afrek á sviði menntamála
Ingvi Hrannar Ómarsson er 36 ára menntafrömuður. Hann hóf kennsluferil sinn árið 2010 og starfaði lengst af við grunnskólana í Skagafirði eða alveg til ársins 2021, þó með tveimur námshléum þegar fór í mastersnám við háskólann í Lundi í frumkvöðlafræði og nýsköpun og svo mastersnám við Stanford Graduate School of Education í Bandaríkjunum sem er einn virtasti háskóli heims. Ingvi Hrannar hlaut íslensku menntaverðlaunin árið 2020 sem vakti eftirtekt þar sem það er sjaldgæft að svo ungur einstaklingur hljóti þau merkilegu veriðlaun.
Ingvi Hrannar er ötull talsmaður þess að bæta menntun og kennsluhætti í skólum hérlendis og vinnur að því á margvíslega vegu. Meðal annarra verka er að halda úti svokölluðu #menntaspjall á Twitter en það hefur hann gert reglulega í tæpan áratug. Hann stýrir einnig hlaðvarpsþáttunum Menntavarp þar sem hann ræðir við fólk sem er að gera stórkostlega hluti á Íslandi og víðar. Nýlega stýrði hann nýjum sjónvarpsþáttum um mögnuð skólaþróunarverkefni um land allt í samstarfi við N4 og Samtök áhugafólks um skólaþróun, ásamt því að Ingvi Hrannar sinni fjölmörgum öðrum verkefnum sem hafa öll sama markmið, að bæta nám og kennslu á Íslandi.
Langstærsta verkefnið hans er hins vegar að halda Utís ráðstefnuna sem hefur verið haldin árlega frá árinu 2015 og hefur átt stóran þátt í þeirri framþróun sem orðið hefur í upplýsingatækni og skólaþróun hér á landi síðustu árin.
Ingvi Hrannar er sá kennari sem hefur haft mjög mikil áhrif á íslensk skólakerfi. Hann hefur lagt mikla áherslu á það í sínu starfi að tengja kennara saman til að mynda sterkt afl, einnig hefur hann verið hvað duglegastur við að deila því sem hann gerir og hvatt aðra kennara til að deila sinni vinnu. Hann heimsækir skóla og heldur erindi fyrir kennara og starfsfólk en Ingvi Hrannar er vinsæll fyrirlesari um menntamál og var nýlega aðalfyrirlesari á stórri alþjóðlegri menntaráðstefnu í New Orleans svo eitthvað sé nefnt.