Stefán Ólafur Stefánsson

Störf á sviði viðskipta, frumkvöðla og/eða hagfræði

Stefán Ólafur Stefánsson er tveggja barna fjölskyldufaðir á Seltjarnarnesi, útskrifaður með B.A. í Uppeldis- og menntunarfræði og M.Sc. í Markaðsfræði og Alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands. 

Árið 2016 stofnaði hann ásamt öðrum fyrirtækið Ekki Gefast Upp! með það að markmiði að bjóða upp á líkamsrækt fyrir börn og ungmenni sem glíma við andlega vanlíðan s.s kvíða og þunglyndi. Markmiðið með stofnun Ekki gefast upp! var að skapa jákvæða upplifun af hreyfingu fyrir einstaklinginn og mæta honum með persónulegri nálgun og þéttum stuðningi. Á námskeiðum þeirra er leitast við að skapa tækifæri fyrir börn og ungmenni sem búa að neikvæðri reynslu úr heimi skólaíþrótta eða skipulags íþróttastarfs til að finna aftur þá gleði og ánægju sem hreyfing getur haft.

Námskeiðin hafa hlotið mikilla vinsælda síðan þau hófu göngu sína árið 2016 og hafa skapað sér stóran sess í þeim málaflokki er kemur að forvörnum og ræktun geðheilbrigðis meðal barna og ungmenna. Eftirspurnin er mikil og fjölbreyttur hópur einstaklinga sækir þar þjálfun. 

Nýlega var verkefnið Ekki Gefast Upp! styrkt af velferðarsjóð barna um 2,8 milljónir og var styrkurinn fyrst og fremst nýttur til þess að gera fleiri ungmennum kleift að taka þátt og fyrir Ekki Gefast Upp! til að ná í auknum mæli til jaðarsettra hópa í samfélaginu. Þá stóð hópurinn fyrir vitundarvakningunni “Tölum saman” þar sem almenningur var hvattur til að skora á sjálfan sig og skuldbinda sig í leiðinni til að láta fjölskyldu sína og vini vita að þau væru til staðar ef eitthvað bjátaði á.

Stefán hefur lengi starfað með ungu fólki en hann starfar einnig sem IPS atvinnulífstengill hjá VIRK Starfsendurhæfingarsjóð. Í starfi sínu aðstoðar hann ungt fólk í endurkomu til vinnu sem glímir m.a við íþyngjandi félagslegar aðstæður, lítinn félagslegan stuðning, geðrofssjúkdóma o.fl. 

Áður starfaði Stefán Ólafur sem stuðningsfulltrúi fyrir Reykjavikurborg, sem fóstra í sumarbúðum fatlaðra í  Reykjadal og sem NPA aðstoðamaður. Lengst af eða frá árunum 2013-2019 starfaði hann sem ráðgjafi á Barna- og Unglingageðdeild Landspítalans og sinnti þar bæði einstaklings og fjölskylduráðgjöf í meðferð tengdri sjálfsvígshugsunum og tilraunum til sjálfsvígs, alvarlegum og hamlandi einkennum þunglyndis og kvíða og meðferð tengdri einkenna og gruns um geðrof. Þá bar hann ábyrgð á öryggismálum deildarinnar og starfaði í átröskunarteymi deildarinnar alla sína tíð.

Málefni barna og ungmenna hafa lengi verið honum hugleikin en Stefán situr í samráðshóp vegna undirbúnings frumvarps til nýrra laga um heildstæða skólaþjónustu á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi en árið 2019 kynnti hann meistararitgerð sína á Þjóðarspeglinum um viðhorf ungmenna í 8. – 10. bekk til skólaíþrótta.