Tinna Hrund Hlynsdóttir Hafberg 

Störf á sviði mannúðar- eða sjálfboðaliðamála

Tinna hefur gríðarlega reynslu á ýmsum sviðum atvinnulífsins enda hefur komið víða við á höfuðborgarsvæðinu og líka á Ísafirði.  Það er vægt til orða tekið að segja Tinna sé öflug, ung kona á Ísafirði. Hún hefur vakið athygli fyrir mikið og óeigingjarnt starf í þágu síns samfélags. 

Tinna brennur fyrir samfélagi sínu og nærumhverfi. Hún telur að með samstöðu og góðu fólki séu allir vegir færir. Með það að leiðarljósi stofnaði hún félagið Stöndum saman Vestfirðir árið 2016 ásamt tveimur vinkonum sínum og gerðist formaður félagsins. Markmið félagsins er að standa saman að því að bæta samfélagið og hafa þær verið ötular í því að safna fyrir ýmsum tækjum og tólum sem hefur vantað í heilbrigðiskerfið í litlum bæjum á Vestfjörðum. https://www.facebook.com/profile.php?id=100068992033080

Tinna er menntuð í stjórnun og forystu með áherslu á mannauðsstjórnun  frá Háskólanum á Bifröst, hún hefur einnig klárað ýmsar diplómur og námskeið ásamt því að hafa  klárað nám í sáttamiðlun og er lærður áfengis og vímuefnaráðgjafi. Hún segir það hafa nýst sér vel í hlutverki fósturforeldris, en þau hjónin eru nú með tvö börn í fóstri.

Í sjö ár hefur hún haldið Dömukvöld ásamt fleiri fótboltamömmum, og hefur það lukkast gríðarlega vel. Ágóðinn rennur í barna og unglingastarf knattspyrnudeildarinnar.

Árið 2023 fór Tinna ásamt vinkonu sinni  af stað með „Jóladagatal verslana í Ísafjarðarbæ“ þetta er lítið samfélagsverkefni sem verður keyrt aftur af stað núna í desember þar sem auglýst er á netinu afsláttadagar hjá fyrirtækjum. Með þessu verkefni eru þær að hvetja bæjarbúa að versla heimabyggð. 

Þessa dagana er Tinna að vinna að litlu jólaævintýri sem nefnist „Jólaævintýri í Jónsgarði“ og er hugsuð sem ljúf fjölskyldustund. Fyrirtæki á svæðinu hafa styrkt verkefnið.  Þetta er í fyrsta skipti sem þetta verður prófað. Boðið verður upp á Heitt súkkulaði, piparkökur, kleinur og konfekt í fallega Jónsgarði.  Jólasveinn les jólasögu fyrir börnin og söngfuglar syngja nokkur vel valin jólalög.