Undanfarna daga hefur dómnefnd haft það erfiða verkefni að fara í gegnum á þriðja hundruð tilnefningar og velja þar úr tíu framúrskarandi einstaklinga.

Af þessum tíu hefur dómnefnd jafnframt valið fjóra verðlaunahafa. Það verður spennandi að fylgjast með því hvaða einstaklinga hljóta verðlaunin í ár en forsetinn mun afhenda þau fimmtudaginn 6. júní næstkomandi.

Topp tíu framúrskarandi ungir einstaklingar 2013

Topp tíu hópinn í ár skipa:

Elísabet Ingólfsdóttir
Flokkur 6. Framlag til barna, heimsfriðar og/eða mannréttinda.

Elísabet kom ásamt fleirum að stofnsetningu ungliðahreyfingar Amnesty International og hefur unnið mjög óeigingjarnt starf í þágu mannréttinda. Hún stofnaði einnig, ásamt öðrum, Stop the Traffik, samstarfshreyfingu sem berst gegn mansali í heiminum og hefur verið virk í að vekja athygli á barnaþrælkun víðs vegar um heim.

Fida Muhammad Abu Libdeh
Flokkur 9. Einstaklingssigrar og/eða afrek.

Fida fluttist til Íslands 16 ára gömul sem flóttamaður frá Palestínu ásamt móður og systkinum. Hún þá hóf nám í framhaldsskóla en flosnaði upp úr námi þar sem hún fékk ekki nægan stuðning enda fór námið fram á Íslensku.Hún var ósátt við að hverfa úr námi en var ákveðin að mennta sig. Meðfram vinnu, reka sitt eigið fyrirtæki og stofna fjölskyldu, fór hún í dag- og kvöldskóla í Íslenskukennslu. Í framhaldinu náði hún sér í stúdentsgráðu og þá Bsc gráðu frá HÍ í umhverfis og orkutæknifræði.

Árið 2012 stofnaði Fida fyrirtækið GeoSilica og er framkvæmdastjóri þess en fyrirtækið hefur meðal annars hlotið styrk úr Tækniþróunarsjóði Rannís, fengið viðurkenningu og nýsköpunarstyrk Landsbankans auk þess sem það var í úrslitum um Gulleggið árið 2013.

Guðmundur Stefán Gunnarsson
Flokkur 7. Störf á sviði mannúðar- eða sjálfboðaliðamála.

Guðmundur Stefán er íþróttakennari og júdókennari í Reykjanesbæ. Hann stofnaði júdódeild sem er í dag stærsta júdófélag á Íslandi og er sérstök fyrir þær sakir að hún hefur eingöngu verið rekin í sjálfboðastarfi og nemendur greiða engin iðkendagjöld. Deildin á fjölda Íslandsmeistara og hefur Guðmundur hjálpað mörgum ungum iðkendum sem eiga ekki í önnur hús að venda, að fóta sig í íþróttinni og hefur hjálpað þeim að tileinka sér betri lífsstíl.

Gunnar Hólmsteinn Guðmundsson
Flokkur 1. Störf á sviði viðskipta, frumkvöðla og/eða hagfræði.

Gunnar Hólmstein þarf varla að kynna fyrir nokkrum manni eftir að hann seldi fyrirtæki sitt CLARA fyrir milljarð íslenskra króna til Jive Software.

Auk þess að hafa náð undarverðum árangri í viðskiptum ungur að aldri hefur hann verið mjög virkur í íslesnka sprota- og frumkvöðlaumhverfinu þar sem hann hefur veitt öðrum leiðsögn og innblástur.

Hilmar Veigar Pétursson
Flokkur 8. Störf á sviði tækni og vísinda.

Mikið hefur verið fjallað um velgengni tölvuleikjafyrirtækisins CCP en ekki hefur verið eins mikið fjallað um manninn í brúnni, Hilmar Veigar Pétursson. Auk þess að hafa leitt CCP í gegnum viðvarandi velgengni og gríðarlegan vöxt hefur hann tekið virkan þátt í að móta leikjaiðnaðinn sem og uppvöxt upplýsingatækni og frumkvöðlastarfsemi almennt á Íslandi.

Hilmar Veigar er þekktur fyrir að deila góðfúslega reynslu sinni og þekkingu ásamt aðgangi að tengslaneti ásamt því að vera í alla staði góð fyrirmynd verðandi tölvunörda.

Jón Margeir Sverrisson
Flokkur 9. Einstaklingssigrar og/eða afrek.

Jón Margeir er afburða sundmaður og ólympíu gullverðlaunahafi eftir sigur í 200m skriðsundi á ólympíuleikum fatlaðra í London 2012. Sama ár varð hann þriðji í valinu um íþróttamann ársins. Hann æfir bæði og keppir með ófötluðum einstaklingum og er glæsileg fyrirmynd ungra Íslendinga.

Melkorka Ólafsdóttir
4. Störf /afrek á sviði menningar.

Melkorka er framúrskarandi hljóðfæraleikari sem hefur farið víða um heim til þess að nema og vinna að listinni að leika á flautu. Hún komst inn í nokkra af bestu tónlistarháskólum heims og vann til verðlauna í einni stærstu flautukeppni heims, Nielsen keppninni í Kaupmannahöfn 2010.

Melkorka hefur síðustu árin starfað við sinfóníuhljómsveit í Japan en til þess að komast þar inn þurfti að keppa um starfið eins og venja er við sinfóníuhljómsveitir. Nú nýverið tók hún þátt í einni slíkri fyrir starf við London Philharmonic Orchestra og er ein af úrslitakeppendunum sem verða ráðnir í tímabundið starf með hljómsveitinni á næsta starfsári.

Sigrún Björk Sævarsdóttir
10. Störf /uppgötvanir á sviði læknisfræði.

Sigrún er hörkudugleg ung kona sem hefur hlotið verðskuldaða athygli innan læknastéttarinnar bæði hér heima sem og utan landsteinanna fyrir lokaverkefni sitt frá Háskólanum í Reykjavík sem fjallar um notkun þrívíddarmódela og staðsetningartækja við undibúning skurðaðgerða á höfði. Aðferð Sigrúnar hefur nú þegar verið reynd á Landspítalanum með góðum árangri.

Sigrún er einungis 22 ára og því töluvert á undan jafnöldrum sínum í námi en hún lauk framhaldsskólanum á tveimur árum. Sigrún hyggst byrja á mastersnámi fljótlega en þessa stundina er hún að einbeita sér að söngnámi þar sem hún er á áttunda stigi.

Sindri Snær Einarsson
3. Leiðtogar/afrek á sviði menntamála.

Sindri er formaður Landssambands æskulýðsfélaga og vinnur jafnframt hjá Hinu Húsinu í Reykjavík. Hann er einn af stofnendum Sambands íslenskra framhaldsskólanema ásamt því að hafa unnið fyrir Iðnnemasamband Íslands. Hann hefur setið í ótal nefndum, ráðum og samráðshópum á vegum ríkisins, sveitafélaga eða félagasamtaka og hefur verið leiðandi í málefnum ungs fólks.

Sindri er öflugur leiðtogi ungs fólks á sviði æskulýðsmála, formlegar- og óformlegrar menntunar.

Vilborg Arna Gissurardóttir
9. Einstaklingssigrar og/eða afrek.

Vilborg er fyrsta íslenska konan sem gengur á Suðurpólinn og safnaði í leiðinni 37 milljónum til styrktar kvennadeildar Landspílalans. Nú stefnir hún á að klífa sjö hæstu tinda heims en hún komst á tind Denali (McKinley-fjall), hæsta fjalls Norður-Ameríku, fyrir nokkrum dögum síðan.

Vilborg hefur haldið fjölmarga fyrirlestra og hvatt fólk til að setja sér markmið og láta drauma sína rætast. Hún hefur svo sannarlega lagt sitt af mörkum til að bæta samfélagið og er frábær fyrirmynd fyrir ungt fólk.