Top 10 listinn 2014

 

Dómnefnd kom saman um helgina og valdi topp 10 hópinn í ár og sigurvegara. Dómnefndina í ár skipa Sigurður Sigurðsson landsforseti JCI, Dr. Ari Kristinn Jónsson rektor HR, Katrín Jakobsdóttir alþingiskona og Vilborg Arna Gissurardóttir ævintýrakona og pólfari.

Verðlaunin Framúrskarandi ungir Íslendingar verða veitt við hátíðlega athöfn mánudaginn 2. júní kl. 16:30-19:00 í Sólinni í HR. Forseti Íslands og verndari verkefnisins, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson mun afhenda verðlaunin.

Topp 10 hópinn í ár skipa:

Alexandra Chernyshova
Flokkur 4. Störf/Afrek á sviði menningar
Alexandra er óperusöngkona sem hefur unnið mikið þrekvirki í tónlist. Hún hefur sungið víða á alþjóðlegum sönghátíðum, sett upp fimm stórar óperur auk þess að semja eina og setja hana upp í Hallgrímskirkju í Hvalfirði. Einng hefur hún kennt söng, stofnað söngskóla og haldið fjölda tónleika ein og með öðrum. Verkefni hennar stúlknakórinn Draumaraddir Norðursins hefur tekið þátt í ýmsum alþjóðlegum verkefnum og hefur hún lyft tónlistarlífi Skagafjarðar á hærra plan. Alexandra lauk prófum í söng með hæstu einkunn frá Odessa Tónlistarakademiu í Úkraínu og hefur hlotið mörg verðlaun og viðurkenningar fyrir söng sinn í Evrópu.

Aníta Hinriksdóttir
Flokkur 9. Einstaklingssigrar og/eða afrek
Aníta Hinriksdóttir er fædd árið 1996 og hefur náð frábærum árangri í frjálsum íþróttum. Hún varð heims- og Evrópumeistari í 800 metra hlaupi ungmenna með aðeins sex daga millibili í júlí 2013. Tæpum mánuði síðar bætti hún Norðurlandameistaratitli í safnið og náði þannig á örskömmum tíma að komast á heimslistann í sinni grein. Anítu var boðið að keppa á demantamóti og var valin vonarstjarna evrópskra frjálsíþrótta í kvennaflokki. Aníta stundar nám við Menntaskólann í Reykjavík og lenti í öðru sæti í vali á Íþróttamanni ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna árið 2013.

Anna Pála Sverrisdóttir
Flokkur 7. Störf á sviði mannúðar- eða sjálfboðaliðamála
Anna Pála er lögfræðingur frá Háskóla Íslands og starfar sem sérfræðingur hjá Utanríkisráðuneytinu. Hún gegndi formennsku Samtakanna 78 og vann mikið starf í þágu mannúðar- og mannréttindamála. Anna Pála sem var formaður Ungra jafnaðarmanna og varaþingmaður Samfylkingarinnar, hefur barist ötullega fyrir réttindum ýmissa minnihlutahópa þrátt fyrir mikila mótstöðu. Hún skrifar reglulega greinar og blogg fyrir hin ýmsu vefrit og hefur unnið framúrskarandi vinnu í þágu hinsegin fólks á Íslandi og víðar.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson
Flokkur 5. Störf á sviði siðferðis- og/eða umhverfismála
Guðmundur Ingi Guðbrandsson er umhverfisfræðingur og líffræðingur að mennt og starfar sem framkvæmdastjóri Landverndar. Guðmundur hefur á undanförnum árum rekið Landvernd af röggsemi, elju og hugsjón og hafa störf hans á þessu sviði skipt sköpum fyrir íslenska náttúruverndarbaráttu. Með jákvæðni, dugnaði og drifkrafti hefur hann hrifið fólk með sér í málefnum náttúruverndar. Hann varpar ljósi á mikilvæg málefni og leitast við að ná til allra þjóðfélagshópa í verkefnum sínum með Landvernd. Hann tók þátt í að stofna Félag umhverfisfræðinga á Íslandi, var fyrsti formaður félagsins 2007-2010 og situr nú í námsnefnd og orðunefnd félagsins. Guðmundur smitar og hvetur fólk til dáða með sínum óþrjótandi áhuga á umhverfismálum. Hann vekur fólk til umhugsunar með skrifum sínum og framkomu. Einnig hefur hann haft jákvæð áhrif á náttúruverndarbaráttu með málefnalegri umræðu og með því að finna leiðir til samvinnu.

Hans Tómas Björnsson
Flokkur 10. Störf/uppgötvanir á sviði læknisfræði
Hans Tómas Björnsson er barnalæknir og aðstoðarprófessor við Johns Hopkins háskóla í Bandaríkjunum. Árið 2013 hlaut Hans NIH – Directors Early Independance Award styrkinn að upphæð 250 þúsund dollara á ári í 5 ár til rannsókna sinna. Hans hlaut William K. Bowes Jr. verðlaunin á sviði erfðafræði frá erfðafræðistofnun Harvard-háskóla árið 2014 en þau eru veitt lækni eða vísindamanni sem skarað hefur fram úr og er hann fyrsti starfsmaður John Hopkins til að vinna verðlaunin. Hans Tómas fékk verðlaunin fyrir rannsóknir sínar á Kabuki heilkenni, sem veldur ónæmisbælingu og alvarlegri þroskaskerðingu í börnum.

Haraldur Freyr Gíslason
Flokkur 6. Framlag til barna, heimsfriðar og/eða mannréttinda
Haraldur er leikskólakennari að mennt en hann ásamt Heiðari, söngvara Botnleðju, gaf út plötu fyrir börn sem lokaverkefni í kennaraháskólanum. Hugmyndin á bak við plötuna var að semja og spila metnaðarfulla tónlist sem börn og fullorðnir gætu notið og sem auðvelt væri að syngja með. Upp úr því stofnuðu þeir hljómsveitina Pollapönk sem hefur gefið út þrjár plötur. Haraldur ásamt Pollapönk tóku þátt í Eurovision 2014 og lentu í 15 sæti með lagið Enga fordóma. Með laginu vildu þeir reyna að leggja sitt af mörkum til að uppræta þá samfélagslegu vá sem fordómar og einelti eru. Hann er ötull baráttumaður fyrir kjörum leikskólakennara og er frábær fyrirmynd ungra karlmanna og kvenna. Brýtur upp staðalímyndir og hugar að börnum, minnihlutahópum og jafnrétti í sinni víðustu mynd.

María Rut Kristinsdóttir
Flokkur 3. Leiðtogar/afrek á sviði menntamála
María Rut er með BS gráðu í sálfræði og var formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands veturinn 2013-2014. Hún hefur verið leiðandi í hagsmunabaráttu stúdenta á Íslandi m.a með því að vekja aukna athygli á kjarabaráttu stúdenta og gefið Stúdentaráði aukið vægi. Meðal annars áorkaði hún ásamt samstarfsfélögum sínum að vinna mál gegn ríkinu vegna breytingar á úthlutunarreglum Lánasjóðs Íslenskra námsmanna. María var talsmaður Druslugöngunar árið 2013 sem haldin er árlega með það að markmiði að færa ábyrgð á kynferðiglæpum frá fórnarlömbum og yfir á gerendur. Hún er ötul baráttukona sem mun án efa bæta við afrek sín í framtíðinni.

Sigríður María Egilsdóttir
Flokkur 6. Framlag til barna, heimsfriðar og/eða mannréttinda
Sigríður María er ungur og öflugur talsmaður fyrir jafnrétti. Hún er rétt tvítug og tók árið 2012 þátt í enskri ræðukeppni ESU á Íslandi (nemendasamtök Evrópu) og vann þar glæsilegan sigur. Sigríður María talaði þar um jafnréttismál og von sína um að hennar kynslóð yrði eldri kynslóðum vísari um þau mál. Árið 2013 kom hún svo fram á viðburði á vegum BBC sem kallast “100 women” og hélt þar ræðu um menntun stúlkna og kvenna og framtíðarmarkmið þeirra. Sama ár var hún valin Ræðumaður Íslands. Hún hefur einnig haldið fyrirlestur á TedEx um jafnréttismál. Sigríður er rökviss einstaklingur sem hefur náð að vekja athygli á mannréttindarmálum á alþjóðavísu.

Sævar Helgi Bragason
Flokkur 8. Störf á sviði tækni og vísinda
Sævar Helgi sem er með B.Sc. í jarðfræði frá Háskóla Íslands, er formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness og ritstjóri Stjörnufræðivefsins. Hann er framúrskarandi ungur vísindamaður sem hefur í mörg ár kveikt áhuga barna, ungmenna og fullorðinna á alheiminum og stjörnuskoðun. Hann er orðinn einn helsti sérfræðingur sem fjölmiðlar á Íslandi leita til og minnir um margt á Carl Sagan sem boðberi vísinda á Íslandi. Hann hefur hafið vísindakennslu upp á hærra plan með því að vekja áhuga barna á vísindum og tækni á frumlegan hátt. Hann safnaði öllu fé sem þurfti til að gera Galíleósjónaukann að veruleika og heimsótti í kringum 150 skóla til að afhenda verkefnið persónulega. Galíleósjónaukinn er fyrst og fremst kennslutæki, ætlað til að efla áhuga barna og unglinga á vísindum. Þetta er aðeins brot af miklum dugnaði Sævars við ýmis verkefni tengd stjörnufræði.

Þorsteinn Baldur Friðriksson
Flokkur 1. Störf á sviði viðskipta
Þorsteinn Baldur er framkvæmdastjóri og einn af stofnendum Plain Vanilla sem er framleiðandi tölvuleiksins QuizUp. Plain Vanilla var valið sprota fyrirtæki ársins á Norðurlöndunum nú á dögunum. QuizUp leikurinn, er að mati markaðs og tæknigreiningarfyrirtækisins Fiksu hraðast vaxandi snjallsímaforrit sögunnar, einungis þremur vikum eftir að leikurinn var gefinn út voru notendur orðnir um þrjár milljónir. Leikurinn var jafnframt kosinn besti leikurinn fyrir snjalltæki á Webby verðlaunahátíðinni, en þau eru með þeim virtustu í netgeiranum. QuizUp var einnig tilnefndur til hinna árlegu Crunchies verðlaunanna í flokknum „Fastest rising startup“. Þorsteinn Baldur er nú á lista yfir 100 áhrifamestu menn í tölvuheiminum í Evrópu að mati tímaritsins Wired.

 Dómarafundur-2