Sandra Mjöll er á topp 10 listanum yfir Framúrskarandi unga Íslendinga 2016

Flokkur: Störf /uppgötvanir á sviði læknisfræði

Sandra Mjöll Jónsdóttir Buch

Sandra Mjöll Jónsdóttir Buch

Sandra Mjöll er lífeindafræðingur, aðjúnkt við Háskóla Íslands og framkvæmdastjóri Platome Líftækni. Hún útskrifaðist með viðbótardiplómu í lífeindafræði 2012 og hlaut hvatningarverðlaun Félags lífeindafræðinga við útskrift fyrir framúrskarandi námsárangur. Í kjölfarið hóf hún doktorsnám við Háskóla Íslands undir leiðsögn Dr. Ólafs Eysteins Sigurjónssonar í Blóðbankanum.

Rannsóknir sem Sandra hefur unnið að ásamt samstarfsfólki sínu koma til með að stuðla að framförum í læknisfræði, og þá sérstaklega á sviði stofnfrumulækninga. Hópurinn hefur unnið að þróun á tækni og aðferðum sem gera vísindamönnum kleift að rannsaka og rækta stofnfrumur án þess að nota dýrafurðir. Markmiðið er að bæta núverandi aðferðir og flýta fyrir þróun á stofnfrumumeðferðum sem geta gagnast sjúklingum.

Sandra stofnaði Platome Líftækni ásamt Dr. Ólafi til að auka aðgengi að þessari tækni og er nú unnið að markaðssetningu á fyrstu vörum fyrirtækisins. Platome Líftækni hefur hlotið fjölmörg verðlaun en fyrirtækið hefur meðal annars hlotið Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands (3. Verðlaun), 2. Sæti í Gullegginu og Nýsköpunarviðurkenningu Brautargengis frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Þar að auki hlaut Sandra Women in Tissue Engineering and Regenerative Medicine Award frá National Science Foundation í Bandaríkjunum síðasta haust.

Í starfi sínu sem aðjúnkt við Háskóla Íslands kennir Sandra erfðafræði og vísinda- og teymisvinnu auk þess að sitja í námsbrautarstjórn í Lífeindafræði. Sandra á einnig sæti í stjórn hvatningarsjóðs Félags lífeindafræðinga.

Taekwondo hefur verið stór partur af lífi Söndru en hún er með svarta beltið í íþróttinni og var meðlimur íslenska landsliðsins um árabil. Hún hefur tekið virkan þátt í starfi innan íþróttarinnar og þjálfað alla aldurshópa. Sem þjálfari hefur hún lært að góð teymisvinna, áræðni og hvatning eru mikilvæg til að ná árangri.

Sandra hefur sérstaka ástríðu fyrir því að efla og hvetja ungt fólk til góðra verka. Hún reynir að vera sjálfri sér og öðrum gott fordæmi með því að ögra sjálfri sér stöðugt og takast á við áskoranir af heilum hug.  

Sandra Mjöll er gift Þór Friðrikssyni, lækni. Saman eiga þau eina dóttur, Birtu Þórsdóttur.

Einn Framúrskarandi ungur Íslendingur verður verðlaunaður þriðjudaginn 24. maí kl. 17 í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Ætlar þú ekki að mæta?

Nánari upplýsingar um viðburðinn er að finna hér:
Framúrskarandi ungur Íslendingur 2016 – Verðlaunaafhending