TOPP TÍU 2021
Isabel Alejandra Diaz
Leiðtogar/afrek á sviði menntamála
Isabel Alejandra Díaz hefur gefið af sér í þágu menntunar, ungs fólks, jafnréttis og verið fyrirmynd fyrir fólk af erlendum uppruna sem og Íslendinga alla. Hún er fyrst kvenna til að vera forseti Stúdentaráðs tvö ár í röð og fyrsti forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands af erlendum uppruna. Með þessu hefur hún brotið blað í íslenskri sögu og hagsmunabaráttu stúdenta, kvenna og fólks af erlendum uppruna. Isabel hefur gert fjölbreytileika íslensks samfélags hærra undir höfði, okkur öllum til bóta.
Isabel er útskrifuð úr stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands með BA gráðu og hefur starfað hjá endurmenntun Háskóla Íslands ásamt því að hafa leitt verkefnið Tungumálatöfrar sem er sumarnámskeið fyrir fjöltyngd börn, en Isabel er sjálf fjöltyngd.
Isabel vann til verðlauna í Menntaskólanum á Ísafirði fyrir námsárangur og hefur skarað framúr á hvaða sviði sem hún hefur látið sig varða. Isabel situr nú í háskólaráði Háskóla Íslands fyrir hönd stúdenta og hefur þar lagt fram tillögur, fyrirspurnir og veitt skólastjórnvöldum virkt aðhald. Isabel hefur haldið kröfum háskólanema uppi sem leiðtogi stúdenta á Íslandi í eitt og hálft ár. Þar hefur vandvirkni ráðið för og yfirgripsmikil gagnasöfnun átt sér stað í þágu stúdenta, sem mun hafa mikla þýðingu umfram hennar forsetatíð. Þrátt fyrir mótlæti, hvort sem er frá stjórnvöldum eða úr öðrum áttum samfélagsins, hefur hún aldrei látið deigan síga. Það sést á því á hvaða stað hún er í dag.
Á háskólagöngu sinni var hún virk í hagsmuna starfi Háskóla Íslands, meðal annars sem varaforseti Röskvu – samtaka félagshyggjufólks við Háskóla Íslands. Í Röskvu kom hún að og leiddi margvísleg mikilvæg verkefni, meðal annars setti hún á fót hlaðvarp sem tryggði stofnanaminni hagsmuna baráttunnar með betri hætti en nokkru sinni fyrr. Isabel var fjallkona Ísafjarðarbæjar og hefur haldið uppi heiðri bæjarfélagsins með miklum sóma fram að því og síðan þá.
Isabel er meðal annarra, viðfangsefni í nýrri bók Elizu Reid forsetafrúr: “Secrets of Sprakkar”, sem fjallar um kynjajafnrétti. Isabel fæddist í El Salvador en kom til Íslands ung að aldri og er Íslendingur í húð og hár – og hefur augljóslega verið framúrskarandi í því hlutverki frá upphafi. Umfram hennar störf og metnað, hefur hún smitað út frá sér jákvæðni og velvild. Isabel er ósérhlífin, með hjartað á réttum stað og brennur fyrir hagsmunum stúdenta og minnihlutahópa.