Arna Sigríður er á topp 10 listanum yfir Framúrskarandi unga Íslendinga 2016
Flokkur: Einstaklingssigrar og/eða afrek
Arna Sigríður hlaut mænuskaða eftir skíðaslys í Noregi árið 2006, þá aðeins 16 ára gömul. Hún er krafmikil ung kona sem hefur náð, með þrotlausum æfingum, að byggja upp andlegan og líkamlegan styrk sem fullfrískt fólk lætur sig dreyma um.
Arna hjólar á sérstöku handahjóli en slík hjól sjást æ oftar m.a í keppnum erlendis. Hún tók þátt í handahjólreiðakeppni í Abú Dabí sem tilheyrir Evrópumótaröðinni þar sem hún sigraði sinn flokk með glæsibrag. Á þessu móti voru fimmtíu og fimm keppendur og þar af einungis sex stúlkur. Hún var auk þess, svo vitað sé, fyrsti mænuskaddaði Íslendingurinn til að fara heilt maraþon. Hér má sjá myndband af Örnu hjóla í Bolungarvíkurgöngum.
Arna Sigríður hefur verið dugleg við að miðla reynslu sinni og haldið fyrirlestra fyrir hópa og félagasamtök. Hún hefur einnig látið sig málefni mænuskaddaðra varða og er virk í SEM, Samtökum Endurhæfðra Mænuskaddaðra. Meðal annars má finna viðtal við hana í tengslum við átakið “Stattu með taugakerfinu” sem er átak til lækningar við mænuskaða.
Í tilnefningu Örnu Sigríðar kom meðal annars fram
“Að hlusta á Örnu Sigríði er hvetjandi og sýnir fólki hve langt má ná í lífinu með jákvæðni og eljusemi. Arna Sigríður er mjög jákvæð fyrirmynd”
Einn Framúrskarandi ungur Íslendingur verður verðlaunaður þriðjudaginn 24. maí kl. 17 í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Ætlar þú ekki að mæta?
Nánari upplýsingar um viðburðinn er að finna hér:
Framúrskarandi ungur Íslendingur 2016 – Verðlaunaafhending