TOPP TÍU 2020

Már Gunnarsson

Einstaklingssigrar og/eða afrek

Már Gunnarsson

Már er magnaður drengur sem lítur ekki á sjónleysi sitt sem fötlun . Hann vill útrýma hugtakinu „fatlaður“ og vill ekki dæma fólk fyrir að vera öðruvísi! Hann er mikil fyrirmynd og lætur ekkert stoppa sig og skarar frammúr bæði á sviði íþrótta og menningar. Már er sérstaklega jákvæður einstaklingur,vandar vel til verka og hefur gott skopskyn. Már er afreksíþróttamaður og margfaldur Íslandsmethafi í sundi í fötlunarflokki S11, flokki blindra.

Már átti einkar glæsilegt íþróttaár árið 2019 sem náði hámarki á heimsmeistaramóti fatlaðra í sundi sem fram fór í London. Þar varð Már einn Norðurlandabúa til þess að komast á verðlaunapall þegar hann setti nýtt og glæsilegt Íslandsmet í 100m baksundi og vann til bronsverðlauna í greininni. Hann var kjörinn Íþróttamaður fatlaðra árið 2019, Íþróttamaður Suðurnesja 2019 og Suðurnesjamaður ársins 2019. Hann er einnig handhafi Kærleikskúlunnar 2019.

Á árinu 2019 setti Már alls 28 Íslandsmet og synti þrívegis undir gildandi heimsmeti á ÍM25 í Ásvallalaug. Már stefnir ótrauður að þátttöku á Paralympics í Tókýó 2021 en takist það ætlunarverk hans verður það í fyrsta sinn sem hann keppir á leikunum.

Már er einnig tónlistarmaður en hann spilar á píanó, semur tónlist og syngur. Hann gaf út plötuna Söngur Fuglsins árið 2019, einnig vann hann í desember 2019 jólalagasamkeppni Rásar tvö ásamt systur sinni Ísold Wilberg með laginu, Jólaósk. Einnig lenti Már í 3.sæti í sönglagakeppni Lions í Krakow 2019 með laginu Christmas comes with you, að auki kusu 600 áhorfendur lagið það besta og félag pólskra fjölmiðla kusu lag Más það líklegasta til að ná vinsældum!

Már hélt stórtónleika í mars sl. þar sem hann flutti inn 9 færustu hljóðfæraleikara Póllands þar sem voru spiluð lög eftir hann. Már sá um endurgerð á laginu „Barn“ eftir Ragga Bjarna í flutningi Más og Ivu hefur lagið hlotið gríðarlega útvarpsspilun og var vinsælasta lagið á Bylgjunni í margar vikur. Sumarið 2020 byrjaði Már með útvarpsþátt sem nefnist Unga Fólkið þar sem Már fær til sín fólk sem skarar framúr á sínu sviði eða hefur áhugarverða sögu að segja!