Verðlaunagripur fyrir þann sem verður Framúrskarandi ungur ÍslendingurVerðlaunin Framúrskarandi ungir Íslendingar hafa verið veitt árlega af JCI Íslandi frá árinu 2002.
Þau eru fyrst og fremst hvatningarverðlaun til ungs fólks sem er að takast á við krefjandi og athyglisverð verkefni, ungs fólks sem kemur til með að hafa áhrif í framtíðinni.

Framtíðarsýn JCI Íslands fyrir verðlaunin er sú að þau skapi sér sess í íslensku þjóðlífi. Veki athygli á ungu fólki sem starfar af eldmóð, heilindum og ósérhlífni án þess endilega að hafa hlotið athygli almennings og verði þeim sem þau hljóta hvatning til frekari dáða og veki athygli á verkum þeirra.

Ferlið

Á hverju ári óskum við eftir tilnefningum þar sem allir geta tilnefnt unga Íslendinga sem þeim þykja skara framúr. Sérstök dómnefnd fer svo yfir tilnefningar og velur 10 framúrskarandi einstaklinga sem hljóta viðurkenningu. Einn þessara einstaklinga hlýtur svo verðlaunin Framúrskarandi ungur Íslendingur.

Verðlaunaafhending fer fram við hátíðlega athöfn þar sem Forseti Íslands hr. Guðni Th. Jóhannesson afhendir verðlaunin og viðurkenningar en hann er verndari verkefnisins hér á landi.

Ísland hefur verið þáttakandi í þessu verkefni óslitið síðan 2002 en hér er hægt að sjá lista yfir verðlaunahafa fyrri ára: Framúrskarandi ungir Íslendingar – Verðlaunahafar

Verðlaunin eru veitt í tíu flokkum:

  1. Störf á sviði viðskipta, frumkvöðla og/eða hagfræði.
  2. Störf á sviði stjórnmála, ríkismála eða lögfræði.
  3. Leiðtogar/afrek á sviði menntamála.
  4. Störf /afrek á sviði menningar.
  5. Störf á sviði siðferðis og/eða umhverfismála.
  6. Framlag til barna, heimsfriðar og/eða mannréttinda.
  7. Störf á sviði mannúðar eða sjálfboðaliðamála.
  8. Störf á sviði tækni og vísinda.
  9. Einstaklingssigrar og/eða afrek.
  10. Störf /uppgötvanir á sviði læknisfræði.

Alþjóðleg verðlaun – TOYP

Verðlaunin Framúrskarandi ungir Íslendingar eru partur af alþjóðlegri viðurkenningu sem að JCI stendur fyrir um allan heim til að vekja athygli á því sem er vel gert og einnig til að hvetja annað ungt fólk til dáða. Erlendis eru verðlaunin nefnd TOYP verðlaun en TOYP stendur fyrir “The Outstanding Young People of the World”

Junior Chamber International byrjaði með TOYP árið 1981. Þar áður höfðu Junior Chamber Bandaríkin veitt ungu framúrskarandi fólki verðlaunin síðan 1939. Á meðal þeirra sem hlotið hafa verðlaunin eru m.a Elvis Presley, John F. Kennedy, Bruce Lee, Sammy Sosa, Jackie Chan o.fl. Fyrsta TOYP verðlaunaafhendingin hjá JCI fór fram á Heimsþingi Junior Chamber International í Taipei í Taiwan árið 1983. Síðan þá hafa verðlaunin orðið þekktari og öll aðildarlönd JCI eru hvött til að senda inn tilnefningar.

Árlega eru 10 einstaklingar í heiminum valdir af fjölþjóðlegri dómnefnd til að taka við viðurkenningu. Fyrir mörgum hefur þessi alþjóðlega viðurkenning verið sú fyrsta af mörgum á glæsilegum ferli. Það eru aðildarlönd JCI um allan heim sem senda inn umsóknir og yfirlit um sitt fólk til heimsstjórnar JCI sem að skipar sérstaka dómnefnd og fer yfir allar umsóknirnar og velur síðan tíu af heim sem heiðraðir eru á heimsþingi JCI ár hvert.

Í tvígang hefur Ísland átt fulltrúa í röðum þeirra tíu sem heimstjórn valdi en það eru þau Kristín Rós Hákonardóttir sundkona sem hlaut þau árið 2003 og Guðjón Már Guðjónsson frumkvöðull árið 2009.

Á wikipedia er að finna fínan lista yfir TOYP verðlaunahafa frá árinu 1983 til dagsins í dag:
List of The Outstanding Young Persons of the World (wiki)

Eins og fram kemur hér að ofan þá var undanfari þessara alþjóðlegu verðlauna  TOYA verðlaunin sem JCI í Bandaríkjunum hafa veitt síðan 1939. Hér að neðan er hlekkur á lista yfir alla þá sem hafa hlotið þau verðlaun frá upphafi en á þeim lista er fjöldinn allur af heimsfrægum einstaklingum.
List of Ten Outstanding Young Americans (wiki)