Jón Margeir er á topp 10 listanum yfir Framúrskarandi unga Íslendinga 2016
Flokkur: Einstaklingssigrar og/eða afrek
Jón Margeir er framúrskarandi afreksmaður á heimsvísu í sundi fatlaðra sem sannar sig meðal hinna bestu á hverju mótinu á fætur öðru. Undanfarin ár hefur hann farið með yngri félögum úr sunddeild Íþróttafélagsins Aspar, á mót í Malmö þar sem þau eru flest að feta sín fyrstu spor á erlendu móti en Öspin er uppeldisfélag Jóns. Hann hefur seinni árin synt með sunddeild Fjölnis.
Jón Margeir hefur margoft verið á verðlaunapalli og unnið til fjölda gullverðlauna og hefur jafnframt bætt mörg heimsmetin. Nú í febrúar setti hann heimsmet tvo daga í röð í Malmö, fyrst bætti hann heimsmetið í 400 metra skriðsundi og daginn eftir bætti hann heimsmetið í 100 metra skriðsundi.
Jón Margeir er frábær fyrirmynd fyrir alla, fatlaða sem ófatlaða og sýnir að fólki eru allir vegir færir ef það ætlar sér hlutinn á annað borð.
Einn Framúrskarandi ungur Íslendingur verður verðlaunaður þriðjudaginn 24. maí kl. 17 í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Ætlar þú ekki að mæta?
Nánari upplýsingar um viðburðinn er að finna hér:
Framúrskarandi ungur Íslendingur 2016 – Verðlaunaafhending