Þórunn er á topp 10 listanum yfir Framúrskarandi unga Íslendinga 2016
Flokkur: Störf á sviði mannúðar- eða sjálfboðaliðamála
Þórunn Ólafdóttir hefur frá ágúst síðastliðnum aðstoðað flóttamenn í Grikklandi, bæði á eyjunni Lesbos sem og í flóttamannabúðum í Idomeni. Þórunn hefur unnið óeigingjarnt starf til að bæta aðstæður flóttamanna, sem flestir eru að flýja stríðsátök og koma til Evrópu í leit að friði og öryggi.
Þórunn skrifar reglulega um stöðu flóttafólks og heldur þannig umræðu um málaflokkinn á lofti. Skrif hennar hafa vakið verðskuldaða athygli þar sem hún veitir Íslendingum innsýn inn í þær hörmulegu aðstæður sem flóttafólk býr við innan Evrópu. Þar skiptir sköpum að Þórunn er sjálf stödd í Grikklandi sem gefur umfjölluninni meiri dýpt.
Til að geta aðstoðað flóttafólk sem best stofnaði Þórunn, ásamt hópi fólks samtökin Akkeri síðastliðið haust. Samtökin samanstanda af fólki sem vill leggja sitt af mörkum til að leysa vandann og er Þórunn formaður þeirra. Meginmarkmið Akkeris er að tryggja mannúðlega meðferð á flóttafólki, meðal annars með því að styðja við góð verkefni innan flóttamannabúða í Grikklandi en einnig með því að þrýsta á íslensk stjórnvöld að leggja meira af mörkum til að leysa vandann.
Þórunn hlaut mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar á dögunum fyrir starf sitt sem sjáflboðaliði á eyjunni Lesbos og sýnir í verki að allir geta haft áhrif og bætt heiminn.
Einn Framúrskarandi ungur Íslendingur verður verðlaunaður þriðjudaginn 24. maí kl. 17 í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Ætlar þú ekki að mæta?
Nánari upplýsingar um viðburðinn er að finna hér:
Framúrskarandi ungur Íslendingur 2016 – Verðlaunaafhending