Kristín er á topp 10 listanum yfir Framúrskarandi unga Íslendinga 2016
Flokkur: Einstaklingssigrar og/eða afrek
Kristín er 24 ára Ísfirðingur og var valin Vestfirðingur ársins 2015. Hún er með Downs heilkenni og hefur æft og keppt í sundi hjá Íþróttafélaginu Ívari frá 8 ára aldri. Kristín er mikil afrekskona og árið 2015 setti hún tvö heimsmet og níu Evrópumet á Evrópumeistaramóti DSISO í 25 m laug á Ítalíu. Evrópumetin níu voru sett í fimm greinum en hún sló eigin met fjórum sinnum, sem hún setti í undanrásum í úrslitasundunum. Að auki var hún valin efnilegasti sundmaður mótsins af þjálfurum og fararstjórum liðanna sem þar kepptu.
Kristín var valin íþróttamaður Ísafjarðarbæjar árið 2015, 3. árið í röð. Í frétt á vef bb.is þar sem fjallað er um afrek Kristínar er vitnað í umsagnir um hana: „Kraftmikil, dugleg og heillandi persónuleiki. Metnaðarfullur íþróttamaður með markmið.“ „Kristín hefur sýnt og sannað að hún er verðug fyrirmynd í leik og starfi. Margfaldur heimsmeistari og yndisleg í alla staði.“ „Frábær íþróttakona og fyrirmynd. Gerir alltaf sitt besta með bros á vör.“ Á vef RÚV má einnig finna skemmtilegt viðtal við Kristínu og móður hennar eftir Ítalíuförina 2015. Árangur Kristinar er sérlega eftirtektarverður í ljósi þess að hún æfir einungis þrisvar í viku, klukkutíma í senn í 16 metra laug.
Í tilnefningu Kristínar til Framúrskarandi ungra Íslendinga kemur m.a fram:
Hún er góð fyrirmynd fyrir fatlað fólk og ekki síður góð fyrirmynd fyrir okkur hin að gefast ekki upp og nota hæfileika okkar. Hún hefur betur en nokkur annar opnað augu okkar fyrir því að fólk með Downs getur miklu meira en við flest vissum, fái það hvatningu, sanngirni og þjálfun í hæfileikum sínum.
Einn Framúrskarandi ungur Íslendingur verður verðlaunaður þriðjudaginn 24. maí kl. 17 í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Ætlar þú ekki að mæta?
Nánari upplýsingar um viðburðinn er að finna hér:
Framúrskarandi ungur Íslendingur 2016 – Verðlaunaafhending