Sigga Dögg er á topp 10 listanum yfir Framúrskarandi unga Íslendinga 2016

Flokkur: Leiðtogar/afrek á sviði menntamála

Sigga Dögg

Sigga Dögg – Aldis Pals. Ljosmyndari

Sigríður Dögg eða Sigga Dögg eins og hún kýs að kalla sig er með MA próf í kynfræði og BA próf í sálfræði og er formaður Kynís, kynfræðifélags Íslands. Hún er frumkvöðull í kynfræðslu ungmenna og hefur haldið fjölda fyrirlestra og erinda þar sem hún fræðir ungt fólk um kynlíf og líkamsímynd.

Handbókin “Kjaftað um kynlíf við börn og unglinga. Fullorðnir fræða og ræða” kom út árið 2014. Bókin sýnir brautryðjendastarf Siggu Daggar en fyrst nú er fáanleg á íslensku bók um hvernig fræða megi börn og unglinga um kynlíf. Gagnrýnendur lofa bókina einróma og ber saman um að verkið fylli í stórt gat sem hefur verið til staðar í þessum málaflokki.

Sigga Dögg hefur einnig verið með útvarpsþætti um málefnið og skrifað pistla í dagblöð. Á dögunum kom út ný bók eftir hana “Á rúmstokknum” auk þess sem hún flakkar um landið með fræðslur og er með þriðju bókina i smíðum. Við útgáfu “Á rúmstokknum” sýndi Sigga Dögg fádæma dugnað og elju en hún gaf bókina út sjálf og fjármagnaði með því að halda uppistönd sem urðu svo vinsæl meðal áheyrenda. “Á rúmstökknum” er samansafn pistla og spurninga sem hún hefur skrifað á árunum 2010-2015. 

Í viðtali á pressan.is er haft eftir Siggu Dögg  „Mig langaði til þess að prófa að gefa út bókina sjálf og til þess þurfti ég að útvega mér fjármagn. Ég hef alltaf haft mjög gaman að uppistandi en hélt samt að það væri frátekið fyrir klárara og fyndnara fólk en mig. Margir hafa þó sagt við mig að fyrirlestrarnir mínir séu hálfgert uppistand og þess vegna ákvað ég að það væri engu að tapa. Markmiðið var að fólk hlægi, hvort sem það er af mér eða með mér og ef fólk myndi gera það þá var kominn möguleg fjármögnunarleið. Málið er að þora að taka áhættuna og það hefur aldeilis skilað sér. Ein vinkona mín sagði mér í kjölfarið að fyrst ég þorði að halda uppistand ætlar hún að halda tónleika!“

Í tilnefningu Siggu Daggar kemur m.a fram

Hún er frumkvöðull á sviði kynfræðslu fyrir börn í grunnskóla. Talar opinskátt og svarar spurningum barna á faglegan en skemmtilegan hátt. Tekur við spurningum og fyrirspurnum í tölvupósti og facebook skilaboðum og svarar til baka endurgjalds laust. Hún frábær fyrirlesari og frábær fyrirmynd.

Einn Framúrskarandi ungur Íslendingur verður verðlaunaður þriðjudaginn 24. maí kl. 17 í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Ætlar þú ekki að mæta?

Nánari upplýsingar um viðburðinn er að finna hér: