TOPP TÍU 2021
Björt Sigfinnsdóttir
Störf/afrek á sviði menningar
Björt er meðstofnandi og framkvæmdastýra LungA hátíðarinnar en við hana hefur hún starfað frá stofnun hennar sem var árið 2000. Hún er jafnframt hugmyndasmiður, meðstofnandi og framkvæmdastýra LungA skólans sem stofnaður var árið 2013.
LungA er listahátíð þar sem sköpun, listum og menningu er fagnað með námskeiðum, fyrirlestrum og öðrum viðburðum sem lýkur með uppskeruhelgi: sýningum og tónleikum. LungA „fjölskyldan“ samanstendur nú bæði af árlegri listahátíð og skóla. Dagsdaglega er þetta tvennt rekið sitt í hvoru lagi, en heitið, gildin og hugmyndafræðin eru af sama meiði.
Björt er einnig meðeigandi menningarfélagsins HEIMA, en hugmyndafræði HEIMA er að skapa rými þar sem listamenn á ýmsum sviðum geta búið og starfað í nánd, deilt starfsháttum og hugmyndum. Listamenn geta sótt um að búa í rýminu í 50-80 daga.
Björt er söngkona, listakona, eiginkona og móðir. Hún er lærð Kaospilot og stundar nú mastersnám í verkefnastjórnun hjá HR. Hún nam söng við FÍH, tónlistarskóla Seyðisfjarðar, tónlistarskóla Kópavogs og CVI í Kaupmannahöfn.
Björt hefur verið verkefnastjóri ungmennaskiptiverkefna LungA og Erasmus+ síðustu 11 ár en LungA skólinn og hátíðin fengu heiðursverðlaun Erasmus+ árið 2017. LungA hátíðin fékk Eyrarrósina 2006 og LungA skólinn hefur verið tilnefndur tvisvar. Helsta afrek Bjartar er LungA, skóli og hátíð, en þar hefur hún verið innsti koppur í búri í um tvo áratugi þrátt fyrir ungan aldur. Hátíðin var stofnuð þegar að Björt var 15 ára og fyrstu árin fékk hún léttari verkefni og fékk meira að njóta afrakstursins en fljótlega fékk hún töluverða ábyrgð og hefur í dag unnið á öllum sviðum hátíðarinnar. Drögin að LungA skólanum voru loka verkefni Bjartar við Kaospilot skólann í Árósum en skólinn opnaði tveimur árum eftir að hún útskrifaðist. Björt tók virkan þàtt í að koma lögum um lýðskóla á íslandi til umræðu á þingi, en lögin voru samþykkt 2019.
Í gegnum vinnu sína við hátíðina, ungmennaskipti verkefnin og sér í lagi skólann hefur Björt leiðbeint fjöldann allan af ungmennum í átt að betri sjálfsskilningi, sjálfsöryggi og sjálfsást. Þetta hefur hún gert í gegnum þá fjölmörgu fyrirlestra, námskeið/vinnu smiðjur og einstaklingsviðtöl sem hún hefur boðið upp á. Hún hefur gefið út: tvær bækur, litabók vol 1 og vol 2 – litabók er samansafn myndlistar frá öllum heimshornum sem gerðar eru með það fyrir sjónum að hægt sé að gæða þær litum.
Auk þess gaf björt út geisladisk með hljómsveit sinni FURA sem inniheldur lög og textar eftir hana sjálfa í hennar flutningi. Björt hefur komið fram víðsvegar um Evrópu með hljómsveitinni, á Airwaves, By Larm, Tallin Music week svo eitthvað sé nefnt og tónlistin hennar hefur verið í tveimur kvikmyndum – Agnes Joy sem var tilnefnd sem framlag Íslands til Óskarsins og Mens vi lever (DK), sem rakaði til sín verðlaunum á alþjóðavettvangi.
Björt lék lítið hluterk og söng í Justice League – zack Snider’s directors cut.
Allt í allt er Björt einlægur, klár og sanngjarn leiðtogi sem kemur víða við í mennta- og listaheiminum.