TOPP TÍU 2021

Chanel Björk Sturludóttir

Framlag til barna, heimsfriðar og/eða mannréttinda

Chanel er meðstofnandi Hennar rödd. Hennar rödd eru félagasamtök sem starfa með það að markmiði að auka vitund meðal almennings á stöðu kvenna af erlendum uppruna í íslensku samfélagi. Hún hefur verið áberandi í samfélaginu í tengslum við umræður og baráttur tengdar rasisma á íslandi. Hún vinnur að útgáfu bókar ásamt tveimur öðrum ritstjórum undir formerkjum Hennar Rödd þar sem fjallað verður um reynslusögur kvenna af erlendum uppruna og upplifun þeirra hérna á Íslandi. 

Hún heldur úti Mannflóran sem er fræðsluvettvangur um fjölmenninguna á Íslandi, verkefni sem hófst sem útvarpsþáttur á Rás 1 árið 2020. Chanel hefur komið fram í sjónvarpsþáttunum Börn Þjóða, og talað á mörgum pallborðsumræðum og haldið fyrirlestra. Hún hefur verið áberandi á samfélagsmiðlum í kringum þessar umræður og er óhrædd við að deila og fræða.

Hún hefur sett mikinn tíma og orku í aktivisma og dagskrárgerð, og vakið fólk til umhugsunar um fordóma og rasisma. Hún stóð fyrir ráðstefnunni Hennar Rödd í Borgarleikhúsinu í haust sem fjallaði um það kerfisbundna misrétti sem konur af erlendum uppruna mæta í heilbrigðiskerfinu, sem er mikilvægt málefni sem hefur ekki hlotið nægilegan hljómgrunn í samfélaginu.

Konur af erlendum uppruna skipta miklu máli og eru þær sem hópur gífurlegur fjársjóður fyrir samfélagið í heild, en mæta fordómum, kúgun og ofbeldi á “jafnréttisparadísinni” Íslandi.  Chanel er algjör frumkvöðull í þessum málaflokki og hún vinnur þarft og óeigingjarnt starf.