TOPP TÍU 2021

Heiðrún Birna Rúnarsdóttir

Störf á sviði siðferðis og/eða umhverfismála

Heiðrún Birna er frumkvöðull og eigandi Grænu stofunnar. Græna stofan er vottuð af norrænu vottunarsamtökunum Grøn Salon og er fyrsta hárstofan á landinu til þess að öðlast formlega umhverfisvottun. Með vottuninni er það loforð gefið að allar vörur sem finnast á stofunni og í vefverslun eru hreinar og skaðlausar umhverfinu og lífríki öllu.

Heiðrún hefur stefnt að því að reka sína eigin, umhverfisvænu hárstofu frá því hún var barn. Hún sá alltaf fyrir sér að starfa eingöngu með skaðlaus efni, bæði fyrir umhverfið og sig sjálfa, og er hún því svo sannarlega á réttri hillu. Mikið er um eitruð efni og háraliti á hársnyrtistofum og hafa margir hársnyrtar þróað með sér sjúkdóma því tengdu og hafa þurft að leggja skærin á hilluna.

Heiðrún er ötull talsmaður fyrir umhverfisvernd, umhverfisvænar hárstofur og -hárvörur. Einnig finnst henni mannvæna hliðin skipta gríðalega miklu máli og lögð er sérstök áhersla á að Græna stofan sé öllum velkomin. Klippingar eru ekki kynjagreindar eins og tíðkast á flestum hárstofum, heldur fer verðlag aðeins eftir hártýpum og -formi. Einnig kemur Græna stofan til móts við öll og ef einhverjar sérþarfir eru eða sjúkdómar sem hamla viðskiptavinum á einhvern hátt þá aðlagar Heiðrún vinnulag og umhverfi eftir því.

Í framtíðinni sér hún fyrir sér að Græna stofan öðlist meiri sess í samfélaginu og vonar að fleiri fyrirtæki taki upp græna stefnu sem og að einstaklingar hafi umhverfisvernd að leiðarljósi í lífi og starfi.