TOPP TÍU 2021

Tanja M. Ísfjörð Magnúsdóttir

Framlag til barna, heimsfriðar og/eða mannréttinda

Tanja hefur í sex ár verið ötul baráttukona gegn kynbundnu ofbeldi, bætingum í réttarkerfinu og í þágu þolenda. Allt er þetta launalaust sjálfboðastarf. Hún er með bachelorgráðu í sálfræði og skrifaði ba ritgerð þar sem hún innihaldsgreindi #metoo frásögur kvenna og gerði vandamálinu góð skil. Hún hefur margsinnis bent á óþægilegar staðreyndir, ruggað bátnum og orðið í kjölfarið fyrir miklu aðkasti, en stendur keik þó á móti blási. 

Hún hefur sýnt mikið hugrekki og opnað augu margra hvernig staðan er, í von um að stuðla að auknum upplýsingum og forvörnum gegn ofbeldi og áreitni ásamt því að hafa áhrif á bætta réttarstöðu þolenda og umræðu og viðhorf í þjóðfélaginu.

Tanja hefur verið ein af þeim fremstu í flokki aðgerðasinnahópsins Öfgar sem stofnaður var í vor. Henni hefur verið lýst sem fyrirmynd margra í femínisma og aktívisma í dag sem og bjart ljós fyrir komandi kynslóðir og betra samfélagi fyrir öll kyn og þolendur kynferðisofbeldis.