TOPP TÍU 2021
Þorbjörg Þorvaldsdóttir
Framlag til barna, heimsfriðar og/eða mannréttinda
Þorbjörg Þorvaldsdóttir er formaður Samtakanna ’78 og hefur gegnt því embætti frá árinu 2019. Hún hefur staðið vörð um hagsmuni, öryggi og réttindi hinsegin fólks á Íslandi og eflt starf Samtakanna. Sem formaður hefur Þorbjörg sýnt gríðarlega hæfileika í mannlegum samskiptum, málamiðlun og samningagerð og leiðtogahæfni. Hún hefur lagt áherslu á velferð hinsegin barna og ungmenna, samstöðu hinsegin samfélagsins og baráttu gegn fordómum og hatri í garð hinsegin fólks.
Í formannstíð Þorbjargar hafa Samtökin ’78 eflt nauðsynlega (og oft lífsnauðsynlega) hinsegin ráðgjöf sem og lögfræðiráðgjöf. Samtökin hafa rekið og hlúð að Hinsegin félagsmiðstöð í samvinnu við Tjörnina, sem skapar öruggt umhverfi fyrir ungmenni á aldrinum 13-17 ára sem eru hinsegin eða tengjast hinsegin málefnum á einhvern hátt.
Samtökin hafa styrkt stöðu sína enn frekar sem áreiðanlegt hagsmunaafl í samfélaginu sem nýtur mikillar virðingar. Þorbjörg sýndi og sannaði áhrifamátt Samtakanna á stjórnmál þegar lög um kynrænt sjálfræði voru samþykkt á Alþingi. Undir stjórn Þorbjargar hafa Samtökin ’78 einnig tekið að sér lykilhlutverk í samfélagsumræðunni hvað varðar málefni hinsegin flóttafólks, sem er einn allra viðkvæmasti hópur fólks í heiminum.
Þorbjörg hefur, ásamt teymi sínu, aukið samfélagslega vitund og þekkingu á hinsegin málefnum með auglýsingum, auknu aðgengi að upplýsingum, hinsegin fræðslu, og hefur hún séð til þess að Samtökin ’78 séu áberandi í samfélagsumræðunni hvort sem það er í sjónvarpi, útvarpi, dagblöðum, netinu, sveitastjórnarstiginu eða Alþingi. Samtökin hafa aðstoðað við útgáfu fjölda bóka og barnabóka sem fjalla um hinsegin mál eða sýna hinsegin fólk og fjölskyldur. Þorbjörg sjálf hefur skrifað fjölda greina um hinsegin mál, og er reglulegur og áberandi gestur í útvarpi og sjónvarpi.
Samhliða vinnu sinni sem kennari, hefur Þorbjörg tileinkað sér hagsmuna- og réttindabaráttu og haft bein áhrif á stöðu hinsegin fólks á Íslandi.