Tyrfingur er á topp 10 listanum yfir Framúrskarandi unga Íslendinga 2016
Flokkur: Störf /afrek á sviði menningar
Tyrfingur Tyrfingsson er meðal áhugaverðustu leikskálda landsins af yngri kynslóðinni.
Hann lauk náminu fræði og framkvæmd við leiklistardeild Listaháskóla Íslands árið 2011 og var við nám í Goldsmiths University of London í leikhússkrifum veturinn 2011-2012. Tyrfingur var leikhússkáld Borgarleikhússins og skrifaði leikritið Auglýsing ársins í því verkefni. Áður hafa verið sýnd leikverkin Skúrinn á sléttunni og Bláskjár sem hlutu mikið lof. Fyrir Bláskjá hlaut hann Grímuverðlaunin sem eru verðlaun íslenskrar leiklistar. Í þessu viðtali Brynju Þorgeirsdóttur á RÚV árið 2014 má finna viðtal við Tyrfing.
Í dómi Dagnýjar Kristjánsdóttir af Hugrás, vefriti Hugvísindastofnunar segir: „Tyrfingur Tyrfingsson lætur til sín taka í texta sem er bæði djúphugsaður og grimmur, tilfinningaríkur, fullur af ást eða ástarþrá en líka reiði og mannfyrirlitningu. Af nógu er að taka í þessu verki!
Í umsögn um Tyrfing til verðlaunanna Framúrskarandi ungur Íslendingur má meðal annars finna:
Tyrfingur Tyrfingsson er ungt leikritaskáld sem hefur fært ferskan blæ inn í leikhús á Íslandi. Hann óttast ekki að taka afstöðu í verkum sínum og velta upp spurningum um samfélagið sem ekki endilega allir vilja heyra svarið við. Tyrfingur er aðeins 29 ára gamall en hefur þegar sett upp leikverk í fullri lengd á fjölum Borgarleikhússins og fengið mikið lof fyrir. Til þess að ná slíkum árangri þarf að búa yfir mikilli reynslu og hefur Tyrfingur verið að skrifa og leikstýra verkum síðan í menntaskóla. Það er því tími til kominn að hann fái verðskuldaða viðurkenningu fyrir verk sín.
Tyrfingur steig inn á svið þar sem ungt fólk þurfti að berjast fyrir að láta rödd sína heyrast, svið þar sem fáum er gefinn tími til þess að skapa enda samkeppnin mikil. Hann er gífurlega sterk fyrirmynd fyrir ungt fólk í listsköpun í dag. Óhræddur við að vera hann sjálfur, hugsa út fyrir kassann og skapa list sem hæfir samtíma okkar og framtíð.
Einn Framúrskarandi ungur Íslendingur verður verðlaunaður þriðjudaginn 24. maí kl. 17 í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Ætlar þú ekki að mæta?
Nánari upplýsingar um viðburðinn er að finna hér:
Framúrskarandi ungur Íslendingur 2016 – Verðlaunaafhending