Þórunn Eva G. Pálsdóttir fær verðlaunin Framúrskarandi ungur Íslendingur 2021

Þórunn Eva G. Pálsdóttir hlaut í dag titilinn Framúrskarandi ungur Íslendingur 2021. Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson afhenti verðlaunin í Safnahúsinu við Hverfisgötu ásamt Ríkey Jónu Eiríksdóttur, landsforseta JCI.

JCI á Íslandi veitir verðlaunin á hverju ári en Þórunn var tilnefnd fyrir framlag sitt til barna, heimsfriðar og/eða mannréttinda. Verðlaunagripurinn er einstakt listaverk eftir glerlistamanninn Jónas Braga Jónasson.

Ríkey Jóna Eiríksdóttir landsforseti JCI, Þórunn Eva G. Pálsdóttir Framúrskarandi ungur Íslendingur 2021 og Forseti Íslands hr. Guðni Th. Jóhannesson. Mynd: Gunnar Þór Sigurjónsson

Forseti Íslands hr. Guðni Th. Jóhannesson afhendir Þórunni Evu G. Pálsdóttur verðlaunin Framúrskarandi ungir Íslendingar. Mynd: Gunnar Þór Sigurjónsson

Þórunn Eva Framúrskarandi ungur Íslendingur (fyrir miðju) ásamt Forseta Íslands hr. Guðna Th. Jóhannessyni og Ríkeyju Jónu Eiríksdóttur landsforseta JCI. Mynd: Gunnar Þór Sigurjónsson

Á hverju ári óskar JCI hreyfingin eftir tilnefningum til verðlaunanna og dómnefnd velur síðan 10 einstaklinga sem hljóta viðurkenningu fyrir að vera Framúrskarandi ungir Íslendingar vegna einstaks framlags þeirra til íslensks samfélags. Hér er hægt að lesa um Topp tíu hópinn í ár. Verðlaunin sjálf eru síðan veitt til eins einstaklings sem þykir skara sérstaklega fram úr en í ár bárust hátt í 300 tilnefningar. Aðrir sem voru tilnefndir í ár eru Björt Sigfinnsdóttir, Chanel Björk Sturludóttir, Eyþór Máni Steinarsson, Hanna Ragnarsdóttir, Heiðrún Birna Rúnarsdóttir, Isabel Alejandra Diaz, Sindi Geir Óskarsson, Tanja M. Ísfjörð Magnúsdóttir og Þorbjörg Þorvaldsdóttir.

Topp 10 2021

Um Þórunni Evu

Þórunn Eva skrifaði bókina Mia fær lyfjabrunn en hugmyndin að bókinni varð til þegar hún var að gera lokaverkefnið sitt í sjúkraliðanáminu vorið 2019. Lokaverkefnið fékk hæstu einkunn og hvatti kennari Þórunnar að láta verða að þessari bók. Það er mikil þörf fyrir bætta fræðslu í samfélaginu okkar almennt og er hún alls ekki minni innan veggja spítalans og fyrir litla fólkið okkar þar.

Það eru alltaf nokkur börn á ári sem þurfa að fá lyfjabrunn og eru ástæðurnar misjafnar. Stór hluti þessara barna eru börn sem greinst hafa með krabbamein en það eru einnig börn með hjartasjúkdóma, Cystic Fibrosis, blóðsjúkdóma, meðfædda ónæmisgalla og meltingarsjúkdóma sem þurfa að fá lyfjabrunn svo dæmi séu tekin.

Þórunn Eva á barn sem er með lyfjabrunn og þekkir því ferlið vel. Þórunni Evu fannst vanta bók sem þessa til að grípa í og lesa með sínu barni til að auðvelda því ferlið. Það er gott að leyfa barninu að lesa, skoða og spyrja. Það er ekki til nein sambærileg fræðsla á íslensku sem hægt er að rétta foreldrum svo þetta verkefni er mjög þarft og mikilvægt inní þá fræðslu sem er veitt í dag.

Þórunn stofnaði svo góðgerðarfélagið Mia Magic í kjölfarið. Samtökin gefa langveikum börnum og foreldrum þeirra Miu box með gjöfum einu sinni í mánuði. Öll Míuboxin eru hönnuð út frá þeim einstakling sem fær það afhent og því er hvert og eitt Míubox afar sérstakt rétt eins og sá einstaklingur sem fær það afhent.

Einnig stofnaði hún Miu verðlaunin eru verðlaun til að heiðra þá sem koma að þjónustu langveikra barna á einn eða annan hátt, þar sem heilbrigðisstarfsmenn eru tilnefnd. Miu verðlaunin hafa verið veitt tvisvar. 

 

Verðlaunin Framúrskarandi ungir Íslendingar eru alþjóðlegt verkefni JCI hreyfingarinnar en árlega eru 10 framúrskarandi einstaklingar verðlaunaðir á heimsþingi JCI. Þórunn Eva verður því tilnefnd frá Íslandi til alþjóðlegu verðlaunanna á næsta ári.

Verðlaunin eru bæði hvatning fyrir þessa framúrskarandi einstaklinga til áframhaldandi starfa og á sama tíma innblástur og hvatning til okkar allra að leggja okkar af mörkum til að byggja betra samfélag.

JCI á Íslandi óskar Þórunni Evu innilega til hamingju með verðlaunin og öllum í Topp tíu hópnum innilega til hamingju með tilnefningarnar.