IMG_1685_800

JCI á Íslandi veitti síðastliðinn mánudag, þann 28. ágúst, verðlaunin Framúrskarandi ungir Íslendingar en það var forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson sem afhenti verðlaunin ásamt Svövu Arnardóttur, landsforseta JCI á Íslandi. Verðlaunaafhendingin fór fram í Háskólanum í Reykjavík.

Á hverju ári óskar JCI hreyfingin eftir tilnefningum til verðlaunanna og dómnefnd velur síðan 10 einstaklinga sem hljóta viðurkenningu fyrir að vera Framúrskarandi ungir Íslendingar vegna einstaks framlags þeirra til íslensks samfélags. Verðlaunin sjálf eru síðan veitt til eins einstaklings sem þykir skara sérstaklega framúr en í ár féllu þau í skaut Ævars Þórs Benediktssonar fyrir afrek sín á sviði menntamála.

Ævar Þór er leikari, sjónvarpsmaður, útvarpsmaður og rithöfundur með brennandi áhuga á að skemmta og mennta ungt fólk. Í bókum sínum leitast hann við að kveikja áhuga á vísindum hjá börnum. Hann hefur einnig staðið fyrir lestrarátaki og hvatt börn til lestrar og forvitni. Þar að auki hefur hann tekið meðvitaða ákvörðun um að nota leturgerð í bókum sínum sem er sérgerð til þess að auðvelda lesblindum textann. Með því hvetur hann þá sem sem verða oftast útundan í lestrarhópum á grunnskólaaldri til að lesa. Hann gaf síðast út bókina Bókaflóttinn mikli sem einnig kom út á ensku og dönsku. Ævar Þór hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga meðal annars viðurkenningu frá samtökum móðurmálskennara fyrir framlag sitt til íslenskrar tungu, viðurkenningu fyrir að vera einn af bestu barnabókahöfundum Evrópu og hann hefur nokkur Edduverðlaun undir beltinu ásamt vísindaviðurkenningu Siðmenntar.

Verðlaunin eru alþjóðlegt verkefni JCI hreyfingarinnar en árlega eru 10 framúrskarandi einstaklingar verðlaunaðir á heimsþingi JCI. Ævar Þór verður því tilnefndur frá Íslandi til alþjóðlegu verðlaunanna. Elizes Low, verkefnastjóri Framúrskarandi ungra Íslendinga 2017 hefur einnig unnið að verkefninu í Malasíu. Hún segir afar mikilvægt að veita athygli öllu því góða starfi sem einstaklingar eru að inna af hendi í samfélaginu. Verðlaunin eru bæði hvatning fyrir þessa framúrskarandi aðila til að gera enn betur og á sama tíma innblástur og hvatning til okkar allra að leggja okkar að mörkum til að byggja betra samfélag.

JCI á Íslandi óskar Ævari Þór innilega til hamingju með verðlaunin.

Pistill kvöldfrétta RÚV 28.08.2017 um verðlaunaafhendinguna

Umfjöllun Vísir.is um verðlaunaafhendinguna

Fleiri myndir frá verðlaunaafhendingunni:

21171177_10154956771212794_304923436_o