TOPP TÍU 2020

Hulda Hjálmarsdóttir

Störf á sviði mannúðar eða sjálfboðaliðamála

Hulda Hjálmarsdóttir

Hulda hefur unnið ötullega að réttindum ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein. Hún er framkvæmdastjóri Krafts og var áður í stjórn félagsins. Hulda greindist sjálf greindist með bráðahvítblæði aðeins 15 ára gömul, sigraðist á því og hefur síðan þá unnið að því að hjálpa ungu fólki með krabbamein. Einungis 19 ára hóf hún störf hjá SKB, styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna og síðar meir hjá Krafti, stuðningsfélagi fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur. Hulda hefur ætíð beitt sér fyrir því að gera líf ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein betra og barist fyrir bættum hagsmunum þeirra. Hún hefur haft jafningjastuðning í forgrunni í starfi sínu og hjálpar krabbameinsgreindum einstaklingum og aðstandendum að ná tökum á nýjum veruleika. Í gegnum starf hennar hjá Krafti getur hún hjálpað einstaklingum bæði tilfinningalega, fjárhagslega og félagslega.

Hulda hefur undanfarin ár staðið fyrir þónokkrum vitundarvakningum um ungt fólk og krabbamein. Má þar nefna: Krabbamein kemur öllum við, deildu örinu, #lífiðernúna og svo ekki sé minnst á armbandagerð með slagorðinu Lífið er núna sem hefur svo sannarlega vakið athygli. Með þessum vitundarvakningum hefur hún ásamt öðrum í Krafti vakið eftirtekt á málefnum ungra krabbameinsgreindra og að það sé ekki tabú að vera með krabbamein.

Hulda tók þátt í átaksverkefninu Lífskraftur sumarið 2020 og gekk yfir Vatnajökul ásamt nokkrum konum m.a. til vekja athygli á mikilvægi útivistar og sjálfseflingar í endurhæfingu í kjölfar veikinda og til að fagna lífinu. Snjódrífurnar, eins og hópurinn kallar sig, safnaði áheitum fyrir Líf og Kraft á meðan á 150 km göngunni stóð og ætla að halda áfram að safna á næsta ári þegar þær hvetja konur til að ganga með sér upp á Hvannadalshnúk.