TOPP TÍU 2020

Þorsteinn V. Einarsson

Framlag til barna, heimsfriðar og/eða mannréttinda

Þorsteinn V. Einarsson, Mynd: Davíð Þór Guðlaugsson

Þorsteinn er faðir, maki og femínisti með brennandi réttlætiskennd. Sérstakur áhugamaður um velferð unglinga, réttindi þeirra og jafnréttismál. Þorsteinn hefur ekki alla tíð verið femíniskur karlmennsku-aktívisti heldur talar um sig sem fyrrverandi karlrembu. Viðhorf hans til jafnréttisbaráttu og femínista voru byggð á hans upplifun að konur ætluðu sér að taka yfir og væru að ráðast gegn körlum. Þessi viðhorf Þorsteins breyttust, svo að segja, á einni helgi þegar hann naglalakkaði sig árið 2014. Í kjölfarið tók við lærdómsferli um kynjakerfi, femínisma og karlmennsku sem enn er í gangi. Lærdómurinn hefur falið í sér að sjá hvernig kyn og hugmyndir um kyn skipta máli, hvernig það að vera gagnkynhneigður, ófatlaður, hvítur, menntaður og félagslega sterkur karlmaður skapar honum forréttindi.

Hann heldur úti samfélagsmiðlinum Karlmennskan þar sem að hann fræðir unga sem aldna um karlmennsku ímyndir og hvað karlmennska sé í raun og veru. Vefmiðilinn Karlmennskan varð til í kjölfar samfélagsmiðlaátaksins #karlmennskan á Twitter í mars 2018. Undir myllumerkinu #karlmennskan deildu hundruðir karlmanna reynslusögum af því að hafa upplifað neikvæða pressu frá karlmennskuhugmyndum. Komu fram sögur þar sem menn skömmuðust sín fyrir að gráta við andlát barna sinna, móður eða annarra nákominna. Sögur af ofbeldi og einelti sem menn höfðu orðið fyrir í æsku fyrir að haga sér eða líta út á ákveðinn hátt. Vörpuðu sögurnar ljósi á áhrif og afleiðingar karlmennskuhugmynda á líf karlmanna.

Hann blæs á staðal ímyndir um hina týpísku karlmennsku og reynir að grafa undan því. Hann talar mikið um vanlíðan karlmanna að vera fastir í hringiðju staðalímyndar og lausnin er meðal annars að hrista upp í og víkka út viðteknar karlmennskuhugmyndir. Þannig losna karlmenn, konur og samfélagið allt úr álögum karlmennskuhugmynda kynjakerfisins.