IMG_6511_800

Í gær, þann 11.maí, hélt JCI Ísland upp á 15 ára afmæli verkefnisins Framúrskarandi ungir Íslendingar, en verðlaunin hafa verið afhent árlega frá árinu 2002. Afmælinu var fagnað í Háskólanum í Reykjavík með umræðum og markmiðasetningu um framtíðarsýn Íslands fyrir árið 2032. Velt var upp spurningum á borð við hvaða markmið Íslendingar ættu að setja sér, hvað þyrfti til að ná þeim markmiðum og hver bæri ábyrgð á að skapa framúrskarandi samfélag á Íslandi?

Viðburðurinn var opinn öllum áhugasömum og fengu allir tækifæri til að koma sinni framtíðarsýn og hugmyndum á framfæri, út frá 10 atriðum sem voru til umræðu. Þessi atriði voru viðskipti, frumkvöðlastarf og hagfræði; stjórnmál, stjórnsýsla og lagaumhverfi; menntamál; menning og listir; umhverfismál; framlag til barna, heimsfriðar og mannréttinda; mannúðar- og sjálfboðastarf; tækni og vísindi; heilbrigðismál og læknisfræði; og jafnréttismál.

Þátttakendur kusu þær hugmyndir sem þeim fannst bestar og líklegastar til þess að ná árangri á Íslandi. Hugmyndirnar sem fengu mestan hljómgrunn voru að koma á fyrirbyggjandi læknisþjónustu á landinu, koma á sjálfbærri hringrás í framleiðslu efnis og fæðu og að tryggja framfærslu fólks svo vel að ekki yrði þörf á mannúðar- og hjálparstarfi. Aðrar hugmyndir sem einnig fengu mikið af atkvæðum voru að koma á betra stjórnskipulagi með nýrri eða endurskoðaðri stjórnarskrá, koma í veg fyrir að störf yrðu flokkuð í „karla“
eða „kvenna“ störf og hætta notkun plasts á Íslandi.

Fjölbreyttur hópur tók þátt í umræðunum en meðal gesta afmælisins voru tveir af handhöfum verðlaunanna, þær Tara Ösp Tjörvadóttir og Kristín Rós Hákonardóttir. Búi Bjartmar Aðalsteinsson og Elín Edda Sigurðardóttir mættu einnig en þau fengu viðurkenningar fyrir störf sín á verðlaunahátíðinni í fyrra, Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata og fleiri.

Á viðburðinum var einnig opnað fyrir tilnefningar fyrir Framúrskarandi unga Íslendinga 2017, en þær má senda inn á heimasíðu verðlaunanna, framurskarandi.is.

Mjög líflegt var á viðburðinum eins og sjá má á eftirfarandi myndum:

IMG_5566_800 IMG_5569_800 IMG_5570_800 IMG_5580_800 IMG_6481_800 IMG_6533_800 IMG_6566_800 IMG_6607_800 20170511_171827 20170511_174722 20170511_180615 IMG_5550_800 IMG_5555_800 IMG_5558_800 IMG_5561_800 IMG_5562_800