Elísabet er Framúrskarandi ungur Íslendingur

Verðlaunin afhent

Guðlaug Birna Björnsdóttir, landsforseti JCI Íslands afhendir Elísabetu Brynjarsdóttur verðlaunin

JCI Ísland veitti þann 18. nóvember síðastliðinn, verðlaunin Framúrskarandi ungir Íslendingar. Afhendingin fór fram með óhefðbundnu sniði þar sem ekki tókst að halda verðlaunahátíð eins og síðustu ár í ljósi sóttvarna. Guðlaug Birna Björnsdóttir landsforseti JCI Íslands 2020 fékk það verkefni að afhenda verðlaun utandyra á köldum en fallegum degi. Þetta er 19. árið í röð sem verðlaunin eru veitt á Íslandi.

Alla jafna hefur Forseti Íslands og verndari verkefnisins fengið það hlutverk að afhenda verðlaunin við hátíðlega athöfn ásamt landsforseta JCI á Íslandi. Hr. Guðni Th. Jóhannesson gat því miður ekki verið viðstaddur en sendi fallega videokveðju til verðlaunahafans og einnig til þeirra sem voru tilnefnd í Topp tíu hópnum.

Á hverju ári óskar JCI hreyfingin eftir tilnefningum til verðlaunanna og dómnefnd velur síðan 10 einstaklinga sem hljóta viðurkenningu fyrir að vera Framúrskarandi ungir Íslendingar vegna einstaks framlags þeirra til íslensks samfélags. Verðlaunin sjálf eru síðan veitt til eins einstaklings sem þykir skara sérstaklega fram úr en í ár var það Elísabet Brynjarsdóttir sem var verðlaunað fyrir framlag sitt á sviði mannúðar- eða sjálfboðaliðamála.

Elísabet er verkefnastjóri Frú Ragnheiðar, skaðaminnkandi þjónustu Rauða Krossins en áður en hún varð verkefnastjóri þá vann hún sem hjúkrunarfræðingur hjá Frú Ragnheiði í tvö ár. Hún hóf feril sinn í verkefninu sem sjálfboðaliði áður en hún var ráðin til starfa.

Elísabet Brynjarsdóttir er Framúrskarandi ungur Íslendingur árið 2020

Sem verkefnastjóri hefur hún unnið ótrúlegt þrekvirki við skipulagningu starfsins og vitundarvakningu um orsakir, eðli og afleiðingar vímuefnavanda fyrir einstaklinginn, svo og samfélagið í heild eins og aðstæður heimilislausra og þeirra sem minna mega sín. Hún er ötul baráttukona jaðarsettra hópa, til dæmis heimilislausra og þeirra sem nota vímuefni í æð.

Hún fræðir almenning um stöðu fólks með vímuefnavanda og brennur svo heitt fyrir málefninu. Hún hefur tekið að sér það hlutverk að reyna sýna þjóðinni að fólk er fólk, alveg sama í hvaða aðstæðum það hefur lent og allir eiga skilið mannúð og virðingu.

Hægt er nálgast nánari upplýsingar um Elísabetu hér: Elísabet Brynjarsdóttir – Topp Tíu

Eftir að óskað hafði verið eftir tilnefningum til verðlaunanna í ár fengu tíu einstaklingar viðurkenninguna framúrskarandi ungir Íslendingar en yfir 100 mismunandi aðilar voru tilnefnd af almenningi. Það var dómnefnd sem valdi Elísabetu sem Framúrskarandi ungur Íslendingur 2020 en einnig voru verðlaunuð  þau Anna Þóra Baldursdóttir, Hulda Hjálmarsdóttir, Jóna Þórey Pétursdóttir, Már Gunnarsson, Najlaa Attallah, Ninna Pálmadóttir, Sara Björk Gunnarsdóttir, Stefanía Bjarney Ólafsdóttir og Þorsteinn V. Einarsson. Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um Topp tíu hópinn hér: Topp Tíu hópurinn 2020

Videokveðjan frá Forseta Íslands, Hr. Guðna Th. Jóhannessyni sýnd

Dómnefndina í ár skipaði Andrés Jónsson hjá Góðum samskiptum, Guðlaug Birna Björnsdóttir landsforseti JCI Íslands 2020, Hjálmar Örn Jóhannsson útvarpsmaður og skemmtikraftur, Ingileif Friðriksdóttir fjölmiðlakona og Framúrskarandi ungur Íslendingur 2018, Katrín Magnúsdóttir framkvæmdastjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Godo og Sigurður Sigurðsson verkefnastjóri hjá Heimili og skóli.

Verðlaunin eru hluti af alþjóðlegri viðurkenningu sem JCI stendur fyrir um allan heim til að vekja athygli á því sem er vel gert og einnig til að hvetja annað ungt fólk til dáða.

Erlendis eru verðlaunin nefnd TOYP verðlaun, Ten Outstanding Young Persons of the World, en á meðal fyrri verðlaunahafa á heimsvísu eru Kristín Rós Hákonardóttir sundkona (2003), Guðjón Már Guðjónsson athafnamaður (2009), Tony Robbins, Jackie Chan, Elvis Presley, Bruce Lee og Bill Clinton svo einhver séu nefnd.

JCI á Íslandi óskar Elísabetu innilega til hamingju með verðlaunin.